Það hafa örugglega einhverjir flugvallargestir á Keflavíkurflugvelli talið sig vera enn að dreyma er þeir gengu í morgunsárið fram á tvo ferðalanga, sem voru sofandi svefnpokum í hengirúmum á yfirbyggðu gönguleiðinni sem liggur milli flugstöðvarinnar og bílastæðisins.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir ferðamennina sofandi ekki hafa ratað í dagbókarskráningu næturinnar.
„Það gerist hins vegar nær daglega að fólk leggst til svefns í innritunarsalnum eða fyrir utan flugstöðina,“ segir hann. Oftast sé þetta fólk sem er að fara snemma með morgunflugi eða sem kom til landsins um nóttina. „Þetta gerist nær daglega að einhverju marki,“ segir Guðjón.
Starfsmenn Isavia ýta jafnan við þeim sem þeir sjá sofandi í flugstöðinni og vekja þá varlega. „Við gerum okkur samt alveg grein fyrir að þetta er eitthvað sem gerist og reyndar má segja að það er upplifun okkar starfsmanna að þetta sé ívið minna um þetta nú í sumar, en í fyrra og hitteðfyrra. Þetta er samt alltaf einhver ákveðinn fjöldi.“
Hengirúm hafi hins vegar ekki komið áður við sögu svo hann viti til. „Sá sem ég ræddi við mundi ekki eftir að hafa heyrt áður af viðlíka tilviki,“ sagði Guðjón og kvað ferðafólkið þarna óneitanlega sýna ákveðið hugvit.