Miðborg Reykjavíkur hefur verið troðfull af fólki í allan dag, sem hefur notið einmuna veðurblíðu og ýmissa viðburða á Menningarnótt. Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða á Menningarnótt, segist hæstánægður með daginn.
„Við erum auðvitað rosalega ánægð með þetta veður. Það er ekki sjálfsagt að einn besta dag sumarsins beri upp Menningarnótt,“ segir Guðmundur, sem er staddur á Arnarhóli.
Hann segir að talað sé um að yfir hundrað þúsund manns hafi komið í miðborgina í dag. „Það var mjög góð mæting,“ segir Guðmundur og bætir við að viðburðir dagsins hafi verið vel sóttir.
Ljósmyndarar mbl.is hafa verið á flakki um miðbæinn og litið við á ýmsum stöðum. Margt bar fyrir augu í miðbænum, tónleikar og aðrir listviðburðir af ýmsum toga voru á hverju strái og einnig kíkti ljósmyndari í vöffluboð í heimahúsi.
Dagskráin nær hámarki í kvöld með stórtónleikum bæði við Arnarhól og í Hljómskálagarðinum og svo veglegri flugeldasýningu, sem skotið verður upp frá Ægisgarði að venju á slaginu 23:00.
Guðmundur segir að sýningin verði sjö mínútna löng og að það megi búast við miklum hamagangi. Síðan hefst tæming miðborgarinnar, þar sem Strætó leikur lykilhlutverk.
Benóný Ægisson tróð upp á barnatónleikum í garðinum við Skólavörðustíg 4C.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Frá tónleikum að Skólavörðustíg 4C.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Sprengjukata, Katrín Lilja Sigurðardóttir, fór yfir grunnatriði efnafræðinnar með áhugasömum börnum.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Lögreglumenn á reiðhjólum í miðborginni í dag.
mbl.is/Valli
Þétt setið við Bernhöftstorfuna.
mbl.is/Valli
Prins Póló og Hjálmar spila saman fyrir tónleikagesti á Tónaflóði, stórtónleikum á Arnarhóli.
mbl.is/Hari
Fjölmenni er á Arnarhóli þar sem stórtónleikar Rásar 2 fara fram.
mbl.is/Hari
Boðið var í vöfflukaffi á nokkrum stöðum í miðborginni. Hér í Ingólfsstræti 19.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Löng biðröð var í vöfflurnar í Ingólfsstræti en hún gekk hratt.
mbl.is/Kristinn Magnússon
Gjörningurinn Knús í boði vakti lukku. Það er gott að faðma aðra á fallegum sumardegi.
mbl.is/Valli
Hlutverkasetrið býður upp á knús, stutt knús og löng, allt eftir hvers manns vilja.
mbl.is/Valli
Þessi útbjó alls kyns blöðrudýr.
mbl.is/Valli
Skrautlegur útimarkaður á Laugavegi.
mbl.is/Valli
Börn að leik á Austurvelli.
mbl.is/Valli
Listmálarinn Tolli leyfði gestum og gangandi að fygjast með sér að störfum á Laugavegi í dag.
mbl.is/Valli
Andlitsmyndir teiknaðar á Laugaveginum.
mbl.is/Valli