Tuga hvala vaða við Rif

Grindhvalirnir við Rif.
Grindhvalirnir við Rif. Mbl.is/Alfons Finnsson

Hátt í hundrað grindhvalir hafa safnast saman innan hafnargarðsins við Rif á Snæfellsnesi. Ólíklegt er að um sömu hvalatorfu og varð innlyksa í Kolgrafafirði fyrr í mánuðinum sé að ræða þar sem kálfar eru í vöðunni við Rif. 

„Það er eitthvert rugl á þeim. Þetta eru grynningar hérna,“ segir Alfons Finnsson, fréttaritari mbl.is á Snæfellsnesi. Hann áætlar að um 70-80 hvali sé að ræða. 

Alfons segir að björgunarsveitin sé á svæðinu og reyni að reka þá út en að það gangi erfiðlega. Alfons fylgdist einnig með aðgerðunum í Kolgrafafirði og segir að þær hafi gengið mun betur. 

„Þessir hlusta ekkert. Þeir leita bara hingað inn í hafnargarðinn.“

Alfons áætlar að um 100-120 hvali sé að ræða.
Alfons áætlar að um 100-120 hvali sé að ræða. Mbl.is/Alfons Finnsson

Ferðamenn hafa tekið að safnast saman og fylgjast með atferli hvalanna, segir Alfons.

Ef til vill að elta smokkfisk

Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur segir að hvalirnir séu ef til vill að elta smokkfisk. Þá bendir Alfons á að mikið sé um makríl á svæðinu sem gæti einnig hafa lokkað til sín hjörðina.

Edda segir það ekki útilokað að hvalirnir séu í vandræðum þar sem þeir eru djúpsjávardýr. Hún bendir á að á þessu svæði sé stutt í djúpið en fari hvalirnir of langt inn á grynningar gætu þeir lent í erfiðleikum.

Þá bendir Edda einnig á mikilvægi þess að fólk sé ekki að safnast á bátum í kringum hvalina, nema þá fagfólk og björgunaraðilar.

Mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert