Jón Pétur Zimsen, nýráðinn aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, segir kraftinn og áhugann sem hann fann fyrir hjá Lilju hafa ráðið úrslitum þegar hann ákvað að taka að sér starfið. Jón Pétur lét í vor af störfum hjá Réttarholtsskóla eftir tuttugu ára starf hjá skólanum. Hann hóf að kenna þar árið 1998, var aðstoðarskólastjóri árin 2007 til 2015 og skólastjóri 2015 til 2018.
„Mér leist vel á hana, á kraft hennar og áhuga. Mér fannst ferskt að sjá stjórnmálamann hafa metnað til að gera góða hluti í menntamálunum. Það var það sem á endanum fékk mig til að stíga þetta skref,“ segir Jón Pétur en hann segir það ekki hafa verið planið að ráða sig hjá menntamálaráðherra þegar hann hætti hjá Réttarholtsskóla heldur hafi hann þá ætlað að einbeita sér að öðrum hlutum alveg utan við menntamálin.
„Það er alltaf viskulegt þegar menn eru ekki bara að velja pólitískt heldur einnig faglega,“ segir Jón Pétur en hann telur að með ráðningunni ætli Lilja sér að fá betri tengingu inn í kennara- og skólastjórastéttina. Þar að auki vonast Jón Pétur til þess að geta lagt sitt af mörkunum við að bæta læsi grunnskólanemenda. Gott orð fer af Jóni Pétri frá Réttarholtsskóla þar sem nemendur komu mjög vel út úr Pisa-könnunum og starfsánægja nemenda var mikil.
„Mælingar hafa sýnt dvínandi lesskilning frá 2002, sem er mikið áhyggjuefni. Lýðræðið er í húfi ef menn geta ekki lesið sér til gagns,“ segir Jón Pétur. „Við erum svo lítið land að við ættum að geta tekið á þessu og bætt það sem bæta má,“ segir Jón Pétur sem er sannfærður um að allir séu tilbúnir að róa að sama markmiði; foreldrar, nemendur, stjórnmálin, hagsmunaaðilar og kennarar.
Sem skólastjóri hafði Jón Pétur sig nokkuð frammi í gagnrýni á margt í menntakerfinu. Sagði hann meðal annars þegar hann hætti sem skólastjóri Réttarholtsskóla að skilningsleysi Reykjavíkurborgar ætti sinn þátt í ákvörðuninni. Spurður hvort hann fari inn í ráðuneytið með einhverja utanaðkomandi gagnrýni frá starfi hans í Réttarholtsskóla nefnir Jón til dæmis innleiðinguna á nýjum námsmatskvörðum í grunnskólunum, hið svokallaða „ABCD-mat“.
„Það hefði mátt innleiða það mun betur og vera meiri eftirfylgni,“ segir Jón Pétur en bætir þó við að hann hafi oft og tíðum átt í mjög fínum samskiptum við ráðuneytið. Hann finni því ekki fyrir neinni andúð á nýja vinnustaðnum.
„Ég hef ekki fundið fyrir því,“ segir hann. „Hér er fullt af duglegu og flottu fólki og við erum öll að róa í sömu átt.“
Að sögn Jóns Péturs benda rannsóknir til þess að oft vanti mikið upp á orðaforða og hugtakaskilning íslenskra barna. „Orðaforði og hugtakaskilningur er lykillinn að íslenskunni. Börn verða að geta hlustað og lesið sér til gagns. Við þurfum að bæta þetta og það bara strax, það þarf að skoða út af hverju þetta er. Er minna lesið fyrir börn núna en áður? Það er fylgni milli orðaforða þriggja ára og tíu ára barna og þarna er ábyrgð foreldra mikil,“ segir Jón Pétur.
Segir Jón að íslenskukennsla á Íslandi sé minni en dönskukennsla og bendir á að til þess að börn geti skilið innihald texta þurfi þau að skilja 97-98 prósent orðanna í textanum.
„Ég held að það sé gott að læra að nota snjalltækin,“ segir Jón Pétur spurður út í notkun þeirra í skólastofunni. „En þar verður að vanda til verka og undirbúa sig vel. Snjalltækin bjóða upp á margt, þar eru gríðarlegir möguleikar. Snjalltækin eru gátt inn í gríðarlegt magn upplýsinga og börn þurfa að kunna að fara með þær upplýsingar. Þekkja muninn á því hvað er satt og hvað ekki. Það verður að vera þekking hjá krökkunum til að geta vinsað þarna úr. Grunnurinn að skólastarfinu er að tryggja að allir hafi aðgengi að grunnþekkingu sem hver einstaklingur ætti að búa yfir.“
Spurður út í umræðuna um að afhenda skólum ekki niðurstöður Pisa-kannana segist Jón Pétur trúa því að gagnsæi sé almennt af hinu góða. „En við viljum ekki að það sé einhver stimplun í gangi. Ef skólar koma illa út að þeir verði sjálfkrafa stimplaðir sem hörmungarskólar,“ segir hann.