Vinna við áhættumat sem erlendur sérfræðingur, Preben Willeberg, hefur unnið fyrir landbúnaðarráðuneytið um innflutning gæludýra er mjög langt komin. Þetta kemur fram í svörum landbúnaðarráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Hundaræktarfélag Íslands (HRFÍ) sendi frá sér yfirlýsingu í síðustu viku þar sem það segir rök um lengd einangrunar gæludýra ekki standast og kallar eftir áhættumati Willebergs, sem átti að vera tilbúið í apríl á þessu ári.
Tilefnið var nýleg grein þriggja vísindamanna sem segja sníkjudýr hafa borist með innfluttum gæludýrum í íslenska dýrastofna. „Ég hef áhyggjur af að þessi samantekt frá Keldum, sem kemur á þessum tímapunkti, sé sett fram í pólitískum tilgangi,“ hafði mbl.is eftir Herdísi Hallmarsdóttur, formanni HRFÍ við það tækifæri.
HRFÍ hefur lengi viljað endurskoðun á regluverkinu, sem er orðið 15 ára gamalt, enda er það mat félagsins að núverandi einangrunarreglur brjóti í bága við lög um dýravelferð.
Að sögn Þórs Hrafnssonar, upplýsingafulltrúa í ráðuneytinu, verður haldinn fundur á næstu vikum með Willeberg þar sem hann fer yfir skýrslu sína með ráðuneytinu og sérfræðingum. Upphaflega hafi staðið til að fundurinn yrði haldinn í júlí, en það hafi dregist vegna sumarleyfa.
Segist Þór vonast til að fundurinn verði haldinn fyrir næstu mánaðamót. „Þá þurfa menn að taka umræðu um skýrsluna og taka afstöðu til þess hvort þeir séu sammála því sem þar kemur fram,“ segir hann og kveðst gera ráð fyrir að skýrslan verði gerð opinber eftir að búið er að kynna hana sérfræðingum.