„Það hefur engin almenn ákvörðun um launabreytingar verið tekin af kjaranefnd frá því í september 2017. Það hafa verið teknar ákvarðanir í einstaka málum, sem embættismenn hafa þá verið búnir að bera undir ráðið, en engin almenn ákvörðun um launahækkanir hefur verið tekin frá þeim tíma.“
Þetta segir Inga Björg Hjaltadóttir, formaður kjaranefndar Reykjavíkurborgar, um hvenær nefndin hafi síðast tekið ákvörðun um launahækkanir þeirra embættismanna sem undir hana heyra. Alls heyra 58 embættismenn Reykjavíkurborgar undir kjaranefnd, samkvæmt svörum frá borgaryfirvöldum við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Aðspurð hvort einhverjar ákvarðanir um launahækkanir séu væntanlegar hjá kjaranefnd segir Inga: „Nefndin hefur tilkynnt þeim sem heyra undir hana að verið sé að skoða viðbótareiningar og hvernig þær eru ákvarðaðar hjá þeim sem undir ráðið heyra. En að öðru leyti hefur ekki verið tilkynnt neitt slíkt."