Þjóðgarðsvarðarstaðan ekki auglýst með fyrirvara

Auglýst hefur verið eftir þjóðgarðsverði á Þingvöllum til fimm ára.
Auglýst hefur verið eftir þjóðgarðsverði á Þingvöllum til fimm ára. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þessi staða er auglýst til fimm ára eins og allar svona stöður. Það er í sjálfu sér ekki farið að skoða hvað yrði um þá stöðu þegar og ef Þjóðgarðsstofnunin verður til. Það er jú allt saman í vinnslu og undirbúningi,“ segir Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar. Auglýst hefur verið eftir nýjum þjóðgarðsverði, en fyrr í sumar voru drög að frumvarpi um sameiningu þjóðgarðanna þriggja kynnt.

„Auðvitað er reiknað með því að þessi Þjóðgarðsstofnun verði til á kjörtímabilinu, en reglurnar eru mjög skýrar þegar kemur að því að ráða forstöðumenn ríkisstofnana eins og þjóðgarðurinn á Þingvöllum er. Þá er það bara ráðið til fimm ára, það eru reglur,“ segir Ari.

„Ef það verða svo einhverjar laga- eða skipulagsbreytingar þá verður bara tekið á því þegar þar að kemur.“

Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar.
Ari Trausti Guðmundsson, formaður Þingvallanefndar. mbl.is/Eggert

Enginn fyrirvari um breytingar enn þá 

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verði sameinaðir í eina Þjóðgarðsstofnun.

Helstu markmið með stofnuninni eru að „efla náttúruverndarsvæði með einföldun stjórnkerfis, aukinni skilvirkni og samnýtingu þekkingar“, eftir því sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Þar segir einnig að í skipulagi og fyrirkomulagi stjórnunar stofnunarinnar sé lögð áhersla á valddreifingu og aðkomu sveitarfélaga og samtaka almennings að stjórnun og stefnumótun svæðanna sem undir hana heyra.

Ari segir Þjóðgarðsstofnunina ekki hafa áhrif á þjóðgarðsvörð Þingvalla að svo stöddu og er staðan því ekki auglýst með fyrirvara um breytingar sem kunna að geta stafað af henni.

„Reglurnar eru núna þannig að tilvonandi þjóðgarðsvörður verður ráðinn til fimm ára og svo þegar þessi lög verða samþykkt eða ekki samþykkt þá verður bara tekið á því.

Það er enginn fyrirvari á þessu núna. Þó að þetta séu ekki óskyld mál þá eru þau ótengd þangað til lengra er komið.“

Einar Á. Sæmundssen hefur gegnt stöðu þjóðgarðsvarðar síðasta árið.
Einar Á. Sæmundssen hefur gegnt stöðu þjóðgarðsvarðar síðasta árið. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert