Ferðamenn sem keyrðu utan vegar og tjölduðu á Skeiðarársandi hafa verið tilkynntir til lögreglu af bílaleigunni sem leigði þeim bílinn. Bogi Jónsson hjá Campingcars segir við mbl.is að ferðamennirnir verði boðaðir í skýrslutöku hjá lögreglunni vegna málsins. „Þetta er bara ömurlegt í ljósi þess að við eyðum svona miklum tíma í hvern einstakling til þess að passa að þessir hlutir séu í lagi.“
Upphaflega hafði Bogi ætlað að kæra þá sem tóku bílinn á leigu, en þessum áformum lýsti hann í svari við færslu sem var birt á síðu Facebook-hópsins Bakland ferðaþjónustunnar. Hafði Davíð Sigurþórsson, leiðsögumaður sem var á ferð um Skeiðarársand, birt mynd af bíl sem hafði keyrt utanvegar og lagt til þess að tjalda.
„Þetta sýnir manni kannski hvernig kerfið virkar. Ég hef sem betur fer aldrei þurft að framkvæma það áður að leggja fram kæru gegn nokkrum manni,“ segir Bogi og útskýrir að hann hafi ekki getað kært leigutaka þar sem hann telst ekki aðili máls. „Formlega get ég ekki annað gert en að tilkynna þetta til lögreglu,“ segir Bogi.
Hann segist hafa tilkynnt lögreglu um atvikið. „Ég var bara að ljúka við að ræða við lögregluna. Það sem kemur til með að ske núna, sem sagt er ég með öll gögn um þau og myndir af Facebook, og þau verða að mæta til skýrslutöku hjá lögreglunni,“ segir Bogi.
Hann segist ekki vonsvikinn yfir því að fá ekki að kæra. „Það skiptir mig engu máli hvort það heitir að kæra eða tilkynna. Ég hins vegar vil að svona aðilar séu látnir borga sektir fyrir svona lagað. Við erum lítil leiga og eyðum, og eigum að eyða, töluverðu púðri í að hamra á þessum hlutum að utanvegaakstur og svokallað wild-camping sé ekki leyfilegt.“
Davíð, sem tók myndirnar, segir við mbl.is að hann hafi talað við ferðamennina og þeir fyrst reynt að telja honum trú um að hafa ekki vitað betur. „Þeir vissu alveg upp á sig skömmina,“ segir hann og bætir við að staðarvalið hafi verið sérkennilegt þar sem „þetta er einn af fáum stöðum sem er vel merkt að þarna megi ekki keyra. Hér eru líka stórir steinar settir fyrir einmitt til þess að koma í veg fyrir svona.“
Að sögn Davíðs lendir hann ekki oft í því að rekast á ferðamenn sem gera sambærilega hluti. „Þetta gerist öðru hverju, en maður sér afleiðingarnar sem eru meira áberandi mánuð eftir mánuð, viku eftir viku og dag eftir dag.“
Hann segist ekki hafa neina sérstaka lausn á málinu annað en að brýnt verði fyrir mönnum að skemmdirnar sem utanvegaakstur veldur séu varanlegar og að sektir verði hækkaðar.