Þrír grunnskólar og 33 leikskólar Reykjavíkurborgar eru fullmannaðir, að því er fram kemur í tilkynningu borgarinnar til fjölmiðla. Þá eru um 13% þeirra barna sem sótt hafa um leikskólapláss haustið 2018 á biðlista. Þó hefur gengið nokkuð betur að manna stöður við leik- og grunnskóla en í fyrra, en staðan er að miklu leyti óbreytt á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum borgarinnar.
Búið er að ráða í um 94% allra stöðugilda í 62 leikskólum Reykjavíkurborgar ef miðað er við heildarfjölda stöðugilda í mars og er um helmingur leikskólanna fullmannaður, eða 29. 61,8 stöðugildi eru enn ómönnuð, en á sama tíma í fyrra var óráðið í 120 stöðugildi leikskóla borgarinnar.
Meðal þeirra 33 leikskóla sem eru ekki fullmannaðir er ómannað í eitt til eitt og hálft stöðugildi í 17 leikskólum, við fimm leikskóla eru tvö til 2,63 stöðugildi ómönnuð, í þremur leikskólum eru þrjú ómönnuð stöðugildi og fjögur stöðugildi eru ómönnuð í öðrum þremur leikskólum. Þá er óráðið í fimm stöðugildi í einum leikskóla.
Staðan í starfsmannamálum hefur þau áhrif að óvissa skapast um inntöku 128 barna af um 1.400 sem hafa verið boðuð í vistun í haust. Þessi börn bíða þess að hefja leikskólagöngu við 11 leikskóla.
Þann 18. ágúst voru 55 börn fædd 2016 og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi. Þá kemur fram í tilkynningunni að umsóknir um leikskólavist þessara barna bárust eftir að innritun haustsins hófst. Einnig eru 62 börn fædd 2016 og eldri með flutningsumsóknir milli leikskóla.
Af börnum sem eru fædd á tímabilinu janúar til maí 2017 eru 153 börn á biðlista og eru því 208 börn í heild sem bíða eftir leikskólavist. Það gerir um 13% þeirra sem hafa sótt um leikskólavist frá og með haustinu.
Af 36 grunnskólum borgarinnar eru þrír fullmannaðir, en ráðið hefur verið í 98% stöðugilda og er óráðið í 33 stöðugildi. Þessi stöðugildi skiptast þannig að enn vantar 11 grunnskólakennara, 10 stuðningsfulltrúa, tvo þroskaþjálfa, einn starfsmann í mötuneyti og einn á skólabókasafn. Á sama tíma í fyrra voru tæp 60 stöðugildi ómönnuð.
Heldur erfiðari staða er á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum borgarinnar og eru þar 103 stöðugildi ómönnuð, þar af 16 stöðugildi í störfum með fötluðum börnum og ungmennum. Um er að ræða hálfar stöður og vantar því 211 starfsmenn.
Á sama tíma í fyrra voru 114 stöðugildi ómönnuð og vantaði 226 starfsmenn.