Leikarinn Stefán Karl Stefánsson er látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, eiginkona Stefáns Karls, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.
Stefán Karl greindist með krabbamein í brishöfði haustið 2016. Hann var fæddur 10. júlí 1975 og varð því 43 ára gamall.
Stefán Karl er líklega þekktastur fyrir túlkun sína á Glanna glæp í Latabæ en hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands 1999. Hann lék í fjölda annarra verka en hann og Hilmir Snær Guðnason vöktu mikla athygli fyrir leikritið „Með fulla vasa af grjóti“. Það var sýnt árin 2000, 2002 og 2017.
Hann skar upp herör gegn einelti árið 2002 og hélt fjölda fyrirlestra í skólum en í viðtali við Morgunblaðið árið 2001 lýsti hann reynslu sinni af einelti, bæði sem þolandi og sem gerandi.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sæmdi Stefán Karl riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní. Var hún veitt fyrir framlag hans til íslenskrar leiklistar og samfélags.