„Flestir vita ekki að þeir valda skaða“

Hér má sjá för eftir utanvegaakstur við Grafarlönd á Öskjuleið …
Hér má sjá för eftir utanvegaakstur við Grafarlönd á Öskjuleið frá því á mánudag. Ljósmynd/Lögreglan

Við verðum að hjálpast að, við þurfum markvisst að fræða alla ferðamenn um hina ungu, óhefluðu, sérstöku og viðkvæmu náttúru Íslands.“ Þetta skrifar landvörðurinn Anna Þorsteinsdóttir í löngum pistli á Facebook þar sem hún fjallar um utanvegaakstur ferðafólks.

Anna segir að flestir ferðamenn hafi aldrei séð neitt þessu líkt, aldrei séð svona gróður og viti ekki hvernig þeir eigi að haga sér í svona náttúru. „Það er hlutverk stjórnvalda, bílaleiga, ferðaþjónustu og almennings að upplýsa ferðamenn,“ skrifar Anna.

Ferðamenn vilja vera upplýstir

Anna bendir meðal annars á að þegar hún fór til Nýja-Sjálands hafi hún verið spurð hvort hún væri með drulluga gönguskó sem gætu borið framandi fræ inn í landið. „Megum við í alvöru ekki ónáða ferðamenn með kennslumyndbandi um náttúruna og akstur á Íslandi. Við verðum að hætta þessu hlutleysi. Ferðamaðurinn vill vera upplýstur ég hef ekki enn þá hitt þennan sem vill valda skemmdum. Flestir vita bara ekki að þeir eru að valda skaða.“

Anna bendir á að hún hafi undanfarin þrjú sumur starfað sem landvörður á svæði sem þarfnast mikillar verndunar, skilnings og stjórnunar. Hún fær ekki nóg af fegurðinni og heldur ekki nóg af því að benda ferðalöngum á að halda sig á merktum stígum og vegum.

Langaði að keyra heim og horfa á heilalausa þætti

Hún segist næstum því hafa brotnað saman í gær. Hún sá þá hjólför rétt áður en komið var á bílastæðið við Tjarnargíg. Anna gekk af stað vopnuð hrífu en sér fljótt að að förin voru um 300 metra löng.

Þarna langaði mig mest að gráta, hlaupa upp í bíl, keyra heim, pakka niður í töskur og keyra beinustu leið í blokkaríbúðina mína í Kópavoginum. Fara upp í rúm og horfa á heilalausa þætti á Netflix það sem eftir er af haustinu,“ skrifar Anna en þess í stað öskraði hún og byrjaði að jafna út hjólförin.

Allir verða að hjálpast að

Hún segir að landverðir í dag reyni eins og þeir geti til að fyrirbyggja utanvegaakstur en við Lakagíga er talað við alla sem koma á svæðið fyrir klukkan 17.00. 

Þessi aðferð er að virka og þess vegna er það svo sárt þegar þú kemur að svona utanvegarakstri eins og ég í dag og landverðir við Öskju í þessari frétt. Þú veist að þetta er eftir einhvern sem kom eftir að þú laukst vinnu eða einhvern sem villtist öfugan hring inn á Lakasvæðið,“ skrifar Anna og bætir við að allir verði að hjálpast að til að fræða ferðafólk um viðkvæma náttúru landsins.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert