Sérfræðingar í opinberri stjórnsýslu, sem rætt var við í gær, telja framgöngu borgarritara og skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, þegar þeir sökuðu kjörinn borgarfulltrúa um að hafa brotið trúnað, vera einstaka.
Eva Marín Hlynsdóttir, sérfræðingur í opinberri stjórnsýslu og lektor við HÍ, telur líklegt að embættismennirnir hafi hlaupið á sig.
Annar sérfræðingur segist ekki muna eftir tilviki sem þessu. Embættismenn starfi fyrir pólitískt kjörna fulltrúa, hvort sem þeir tilheyri meirihluta eða minnihluta. Allir embættismenn borgarinnar séu á ábyrgð borgarstjóra.
Eva Marín segir í Morgunblaðinu í dag, að borgarfulltrúinn sem um ræddi (Vigdís Hauksdóttir) hefði ekki farið með upplýsingar innan úr stjórnsýslunni. „Vel mögulegt er að einhver eða einhverjir hafi hlaupið á sig og verið of fljótir að bregðast við með þeim hætti sem gert var,“ segir Eva Marín í umfjöllun blaðsins um þetta mál.