Vísbendingar eru um að sala nýrra íbúða í miðborginni gangi hægar en fjárfestar bundu vonir við. Nú eru til sölu, eða eru að koma í sölu, minnst 500 íbúðir á svæðinu. Miðað við verðþróun má ætla að ásett verð sé að minnsta kosti 25-30 milljarðar.
Einn þessara fjárfesta ræddi við Morgunblaðið í trausti nafnleyndar. Hann sagði útlit fyrir að framboð á miðborgaríbúðum væri að aukast of mikið á skömmum tíma.
Spurður um vísbendingar um hægari sölu í miðborginni sagði Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Íslandsbanka, að þær kynnu að benda til þess „að miðbæjarálagið sé orðið hátt og að fólk sjái hag sínum betur borgið með því að kaupa íbúðir sem eru utan þess svæðis“.
Sturla Geirsson, framkvæmdastjóri hjá Rauðsvík, segir mikilvægt að horfa til lengri tíma á fasteignamarkaði. Hann sé svo hvikull. „Einn daginn er rífandi eftirspurn. Næsta dag les maður að allt sé í dróma.“