Of langt sumarfrí hefur slæm áhrif

Haraldur Jónasson / Hari

„Við höfum rætt þetta við Samband íslenskra sveitarfélaga en ég held að stærsta fyrirstaðan í þessu sé kjarasamningar kennara,“ segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins, um styttingu grunnskólanáms.

Hann segir að stytting grunnskólanáms geti haft jákvæð áhrif á hagvöxt og komið sér vel fyrir börn, foreldra og kennara.

„Ríkið þarf þá auðvitað að breyta aðalnámskránni og svo þarf að semja um þetta í kjarasamningum sveitarfélaganna og félags grunnskólakennara. Þess vegna óttast ég að að það sé svolítið langt í að við sjáum þetta.“ 

Formaður Skólastjórafélags Íslands, Þorsteinn Sæberg, segir aftur á móti að það sé mikilvægt að skoða þau áhrif sem stytting framhaldsskólanna hefur haft á námsframvindu framhaldsskólanema áður en farið verði í að stytta grunnskólanám. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þá afstöðu að ná megi fram meiri sveigjanleika, minna brottfalli og skilvirkni í námsframvindu með styttingu á námstíma barna um eitt ár.

Í frétt mbl.is í gær var sagt frá því að Sólveig Ragnheiður Gunn­ars­dótt­ir, þriggja barna móðir og sér­fræðing­ur í sér­hæfðum fjár­fest­ing­um, hefði vakið at­hygli á því að frídagar grunnskólabarna og frídagar foreldra í fullum störfum væru síður en svo jafnmargir. Hún lagði til að kennt væri á fleiri dögum yfir árið og þannig væri hægt að stytta grunnskólanám um eitt ár.

Segir styttingu stuðla að auknum hagvexti

„Ég held að þetta sé mjög brýnt mál, það að fólk geti hafið háskólanám hér 18 ára eins og tíðkast í mjög mörgum öðrum þróuðum ríkjum. Það væri til þess fallið að auka ævitekjur fólks sem myndi stuðla að hagvexti og bæta lífskjör okkar allra. Þetta hljómar eins og smámál og einhver tæknileg útfærsla en þetta er í raun eitthvað sem skiptir verulegu máli,“ segir Davíð.

Davíð bendir á nýlega grein í tímaritinu The Economist þar sem farið er yfir áhrif of langs sumarfrís á börn og námsgetu þeirra. Þar er fjallað um niðurstöður rannsóknar sem leiða það í ljós að of langt sumarfrí hafi slæm áhrif á námsárangur barna.

„Sérstaklega fátækra barna og barna innflytjenda. Löng sumarleyfi valda því að fólk missir svolítið þráðinn í náminu. Þegar við komum fyrst fram með þessar hugmyndir þá var helsta gagnrýnin sú að við værum að taka sumarfríið af börnunum. Við erum auðvitað ekki að tala um að taka út allt sumarfrí heldur eru þetta 17 dagar sem þyrfti að bæta við skólaárið til að stytta grunnskólagönguna um eitt ár.“

Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins.

Davíð segir að það geti verið flókið fyrir tekjulægri foreldra að finna önnur úrræði fyrir börn sín í fríum. „Fyrst og fremst skiptir það tekjulægri foreldra máli að skólakerfið og atvinnulífið passi saman. Það er auðvitað erfiðara fyrir þau að bregðast við þessum miklu fríum, þau þurfa að gera aðrar ráðstafanir og þær geta kostað sitt. Tekjulægra fólk vinnur einnig gjarnan í ósveigjanlegra vinnuumhverfi en tekjuhærra fólk og getur þá til dæmis ekki tekið börnin með sér í vinnuna.“ 

Annaðhvort meira frí eða hærri laun

Í fréttinni sem birtist í gær nefnir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður verkalýðsfélagsins VR, að atvinnulífið eigi í auknum mæli að koma til móts við foreldra. Aðspurður hvort atvinnulífið þurfi ekki að koma meira til móts við foreldra segir Davíð:

„Það er náttúrulega bara ákveðið svigrúm og ákveðin framleiðniaukning í samfélaginu og fólk verður einfaldlega að gera það upp við sig hvort það vilji meira frí eða hærri laun. Mig grunar til dæmis að stór hluti tekjulægstu hópanna myndi vilja fá hærri laun heldur en meira frí.“

Sólveig benti á, í fréttinni sem birtist í gær, að umræða um styttingu grunnskólanáms færi oft illa í kennara. Davíð segir að það væri einnig hagur kennara ef grunnskólanám væri stytt. „Eins og staðan er núna þá er skortur á menntuðum kennurum. Þetta myndi óhjákvæmilega draga úr þeim skorti. Það er líka mjög hátt hlutfall kennara 60 ára og eldri þannig að styttingin væri einnig leið til að bregðast við því.“

Laun kennara gætu einnig hækkað ef grunnskólanám yrði stytt, samkvæmt Davíð. „Þetta myndi leiða til sparnaðar í kerfinu þannig að það væri mögulega hægt að nota þann pening sem sparast áfram innan grunnskólakerfisins, annaðhvort í formi hærri launa eða betri aðstöðu að einhverju leyti. Mér finnst augljóst að styttingin myndi koma sér vel fyrir kennara, börn og foreldra.“

Segja styttingu geta dregið úr brottfalli

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur þá afstöðu til styttingar grunnskólanáms að „skoðaðar verði faglegar og fjárhagslegar forsendur þess að ábyrgð á skólagöngu barna til 18 ára aldurs verði á hendi sveitarfélaga og að heildarnámstími til loka framhaldsskóla [verði] styttur um eitt ár, til viðbótar við þá styttingu sem þegar er orðin á framhaldsskólanámi. Með því móti megi ná fram meiri sveigjanleika en nú er og skilvirkni í námsframvindu og draga jafnframt úr brottfalli nemenda.“

Þetta segir í skriflegu svari frá Helgu Guðrúnu Jónasdóttur, samskiptastjóra sambandsins. Þar kemur jafnframt fram að það sé „í stefnumörkun sambandsins (2014-2018) enn fremur lögð áhersla á tilraunaverkefni með rekstur framhaldsskóla á sveitarstjórnarstigi, en ekki hefur enn náðst samkomulag um slíkt verkefni við menntamálaráðuneyti,“ segir í svari frá Helgu.

Stytting framhaldsskólanna í forgangi 

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, segir félagið ekki hafa mótað sér skýra stefnu í þessum efnum. „Stytting framhaldsskólanna og þær breytingar sem hún hefur haft á grunnskólana hefur þó auðvitað verið til umræðu hjá okkur í Skólastjórafélaginu.“

mbl.is/Hari

Hann segir enn of fljótt að ræða styttingu grunnskólanna þar sem framhaldsskólanám var fyrir skemmstu stytt úr fjórum árum í þrjú. „Mér finnst að næsta skref sé í raun og veru að taka það út með einum eða öðrum hætti hvaða áhrif stytting framhaldsskólanna hefur haft á námsframvindu nemenda á leið sinni til frekara náms áður en við förum að ræða styttingu grunnskólanáms.“

Þorsteinn bendir á að mikilvægt sé að ræða skólastarf í landinu og að fréttin sem birtist í gær sé hluti af því. „Við lifum ekki á þeim tímum í dag að skólastarf í landinu sé einhver óbreytanlegur þáttur sem ekki sé hægt að ræða. Mér fannst þetta ágætisinnlegg hjá henni [Sólveigu]. Ágætisinnlegg í þá umræðu um hvort við séum stödd á þeim stað að við getum farið að ræða um skólatíma barna almennt, ekki bara í grunnskólum heldur framhaldsskólum líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert