Sjaldgæft smáhveli rak á land eystra

Skugganefjan liggur í norðanverðum Reyðarfirði, um fimm kílómetra frá Mjóeyri.
Skugganefjan liggur í norðanverðum Reyðarfirði, um fimm kílómetra frá Mjóeyri. Ljósmynd/Guðný Margrét Bjarnadóttir

Tilkynnt var um strand tveggja smáhvela á Austurlandi um helgina. Náttúrustofu Austurlands barst ábending um annan hvalinn á laugardag og er hræið staðsett um fimm kílómetra austan við Mjóeyri í Eskifirði. Talið er að sá hvalur sé skugganefja, sjaldgæfur djúpsjávarhvalur.

Á sunnudag var svo tilkynnt um hvalshræ við Barðsnes í Norðfjarðarflóa. Myndir af hræinu voru teknar úr nokkurri fjarlægð og ekki hefur verið hægt að ákvarða hverrar tegundar það er, en strandstaðurinn er úr alfaraleið.

Staðið á skugganefju. Hulda Lind Sævarsdóttir bregður á leik ofan …
Staðið á skugganefju. Hulda Lind Sævarsdóttir bregður á leik ofan á hræinu. Ljósmynd/Berglind Ingvarsdóttir

„Menn álíta það, Gísli Víkingsson [líffræðingur] hjá Hafró telur það, af myndum að dæma, að þetta sé skugganefja, sem er sjaldgæfur djúpsjávarhvalur,“ segir Kristin Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, um hvalinn í Reyðarfirði. Þetta staðfestir Gísli sjálfur við blaðamann.

„Mér sýnist það á myndunum að þetta sé skugganefja,“ segir Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Hann segir skugganefju vera eina af þeim svínhvalategundum sem finnist í hafinu hér við land. Tegundin er skyld andarnefju, sem er algengasta tegund svínhvala við Íslandsstrendur.

Gísli segir að skugganefjur hafi rekið á land hérlendis í um það bil tíu skipti, svo vitað sé til. Hér að neðan má lesa umfjöllun mbl.is um skugganefju sem strandaði í Víkurfjöru árið 2004.

Ekki er loku fyrir skotið að hvalurinn við Barðsnes sé einnig af þessari sjaldgæfu hvalategund. Þó gæti einnig verið um andarnefju að ræða, en ekki hafa fengist nægilega góðar myndir til að ákvarða það.

„Nei, sú mynd var tekin úr töluverðri fjarlægð. Ég gat nú ekki neitt sagt með vissu um það dýr. Af þessari ógreinilegu mynd úr fjarlægð gat maður nú ekki útilokað að það væri líka skugganefja en gat svo sem ekki útilokað andarnefju heldur, sem er nú svona minna fréttnæmt fyrir okkur líffræðingana,“ segir Gísli.

Hann vonast eftir því að fá betri myndir af hræinu til skoðunar.

Hræið við Barðnes í Norðfjarðarflóa. Ekki er hægt að ákvarða …
Hræið við Barðnes í Norðfjarðarflóa. Ekki er hægt að ákvarða hvaða tegund þetta er, út frá þessari mynd. Ljósmynd/Ásgeir Jónsson

Fjögur hvalshræ hafa verið tilkynnt til Náttúrustofu Austurlands það sem af er ári, að sögn Kristínar.

„Það strandaði andarnefja í Seyðisfirði í mars og önnur í Þvottárskriðum núna í júní held ég að það hafi verið, og svo þessir tveir núna. Svo það er bara búið að vera brjálað að gera hérna,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert