Tilkynnt um tvö bit á tveimur árum

Hundur af tegundinni alaska malamute. Malamute er ein þeirra hundategunda …
Hundur af tegundinni alaska malamute. Malamute er ein þeirra hundategunda sem MAST krefst skapgerðarmats á við innflutning. Ljósmynd/Wikipedia.org

Alls hafa Matvælastofnun (MAST) borist tvær ábendingar á síðastliðnum tveimur árum um að hundur af tegundinni alaska malamute hafi bitið fólk. Þetta kemur fram í svörum MAST við fyrirspurn mbl.is.

Lögreglan í Vestmannaeyjum greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að hún hafi verið kölluð að heim­ili í bæn­um á sunnu­dags­kvöld, en þar hafði heim­il­is­hund­ur af teg­und­inni alaska malamu­te ráðist á hús­bónda sinn. Hund­ur­inn hafði bitið eig­and­ann í and­lit og aðra hönd­ina og stóð til að aflífa hund­inn að ósk eig­and­ans.

Þá var töluvert fjallað um það í fjölmiðlum í vor er hundur sömu tegundar beit barn með þeim afleiðingum að sauma þurfti yfir 80 spor í andlit barnsins.

Að sögn MAST hefur stofnunin ekki heimild til að banna ræktun eða dreifingu hundategunda sem finnast á Íslandi. Sveitarfélög geti hins vegar sett reglur um hundahald og bannað þar ákveðnar tegundir, þannig séu ákveðnar hundategundir til að mynda bannaðar í Reykjavík. 

Malamute sé hins vegar ein þeirra hundategunda sem stofnunin krefst skapgerðarmats fyrir við innflutning.

Innflutningur er bannaður á fjórum hundategundum til Íslands, pitt bull terrier eða staffordshire bull terrier, fila brasileiro, toso inu og dogo argention. MAST er engu að síður heimilt að krefjast skapgerðarmats á öðrum innfluttum hundategundum og er það gert í tilfelli alaska malmute.

Þá segir MAST ræktanda malamute-hunda hér á landi sæta eftirliti stofnunarinnar „eins og annað dýrahald í atvinnuskyni“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert