Einn bjóðandi hefur kært útboð Kópavogsbæjar á ræstingu í grunnskólum. Bærinn er búinn að skrifa undir samninga við lægstbjóðanda um þessa þjónustu.
Bæjarráð ákvað á fundi sínum 9. ágúst að ganga til samninga við Sólar ehf. um ræstingar í fimm grunnskólum bæjarins fyrir 108 milljónir kr. Fyrirtækið var lægstbjóðandi í útboði.
Eftir að kærufrestur vegna samninga var liðinn var skrifað undir samninga. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 64 milljónir en tilboð Sólar var 108 milljónir. Önnur tilboð voru hærri, það hæsta 176 milljónir.
Óvenjumargar spurningar og athugasemdir komu fram í útboðsferlinu. Í gær barst bæjarlögmanni tilkynning frá fyrirtækinu Hreint ehf. um kæru. Farið var fram á stöðvun samningsgerðar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.