Vill nýja þjóðgarðsstofnun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hélt fund í dag …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hélt fund í dag með hagsmunaaðilum um frumvarp þess efnis að stjórn þjóðgarða og friðlýstra svæða verði sameinuð undir nýrri stofnun. mbl.is/Gunnlaugur Snær Ólafsson

„Meiningin er að öllum verði boðið starf,“ var meðal þess sem kom fram í máli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á fundi í Hafnarfirði í dag með hagsmunaaðilum vegna frumvarps um nýja stofnun sem mun fara með umsýslu þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða. Þá er gert ráð fyrir að heimila gjaldtöku fyrir veitta þjónustu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjóðgarðarnir þrír, Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull, verði sameinaðir í eina stofnun sem og önnur friðlýst svæði landsins. Þá verði undirbúningur friðlýsinga, eftirlit á friðlýstum svæðum og stjórnun þeirra meðal verkefna hinnar nýju stofnunar.

Í dag fara fjórir aðilar með hlutverk fyrirhugaðrar stofnunar: Vatnajökulsþjóðgarður, þjóðgarðurinn á Þingvöllum, Umhverfisstofnun og Breiðafjarðarnefnd. Ráðherra sagði margar nefndir að störfum innan núverandi skipulags og stjórnkerfi væru mismunandi. Reglur væru heldur ekki samræmdar. 

Auka skilvirkni

Fundargestur spurði ráðherra um hvaða breytinga mætti vænta varðandi störf sérfræðinga sem eru nú á fleiri stöðum. Þessu svaraði Guðmundur Ingi og sagði að til stæði að bjóða öllum starf en að ekkert væri ljóst með starfsheiti og verksvið, að undanskildum þjóðgarðsvörðum þar sem starf þeirra er skilgreint í lögum.

Markmiðið með nýrri stofnun er að „auka samleið og skilvirkni,“ að sögn hans. Jafnframt verði stefnt að því að þjóðgarðarnir haldi sjálfstæði sínu en verði undir samræmdu utanumhaldi og að miðlægur stuðningur við starfssvið þeirra efli starfsemina.

Guðmundur Ingi sagði einnig fjölgun ferðamanna til landsins kalla á samræmingu merkingar og kynningarmála.

Ný umdæmi

Stefnt er að því að skipta landinu upp í umdæmi sem munu hafa eigin stjórnir með aðkomu sveitarfélaga og hagsmunaaðila og munu umdæmin vera samsett með svipuðum hætti og svæðisráð Vatnajökulsþjóðgarðs eru nú.

Guðmundur Ingi sagði þó að landfræðileg skipun umdæmanna væri ekki ákveðin og að það kæmi í hlut nýrrar stofnunar að móta þau. Gert er ráð fyrir að heimila gjaldtöku fyrir veitta þjónustu, að sögn ráðherrans.

Ráðherra hefur haldið fundi víða um land vegna frumvarpsins og verða næstu fundir haldnir á Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og Hvolsvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert