Rennileg Yamaha-sæþota lagðist að smábátabryggjunni á Þórshöfn í síðustu viku og var þar kominn Þjóðverjinn Markus Adam eftir rúmlega 15 tíma siglingu frá Færeyjum.
Adam kom síðar við á Húsavík og ætlar hann sér að fara hringinn í kringum landið.
Hann lét úr höfn frá Þýskalandi 23. júlí og er Ísland sjötta landið sem hann sækir heim á siglingu sinni. Djúpivogur var fyrsti áfangastaður hans á Íslandi og þaðan lá leiðin til Þórshafnar eftir nokkuð þunga siglingu fyrir Langnesið og röstina. Þoka hefur verið á þessum slóðum undanfarið og rigning af og til svo ekki er hægt að tala um draumaveður á leiðinni og veðurspáin honum enn ekki hliðholl.
Sjóferðin frá Þýskalandi gekk vel hjá þessum 56 ára gamla sæþotukappa sem segir að konan og uppkomin börn þeirra séu búin að sætta sig við ævintýraþrá hans og hætt að vera hrædd um hann. Hann er einnig vel búinn öllum öryggis- og staðsetningartækjum að sögn.
Sæþotunni gaf hann nafnið Silagik, sem þýðir „fallegur dagur“ á inúítamáli og er ánægður með farkostinn sem siglir á um 20-25 hnúta hraða en meðalhraði segir hann að sé um 18 hnútar.
„Ég fór heldur hratt fyrir höfrungana sem fylgdu mér smá spöl,“ sagði Markus sem ekki varð mikið var við hvali á leiðinni.
(Leiðin: Þýskaland- Danmörk-Svíþjóð-Noregur-Hjaltlandseyjar-Færeyjar-Ísland)