Lýkur heimsmetstilrauninni um helgina

Jón Eggert á hjóli. Hann hjólaði 5.700 km sem hluta …
Jón Eggert á hjóli. Hann hjólaði 5.700 km sem hluta af heimsmetstilrauninni og lenti í því í lok maí að hjóla í gegnum fyrsta fellibylinn á fellibyljatímabilinu í Flórída. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Jón Eggert Guðmundsson, sem undanfarna mánuði hefur unnið að því að setja heimsmet í lengstu þríþrautinni, lýkur heimsmetstilrauninni á sunnudag. „Þetta er að verða búið,“ sagði Jón Eggert í samtali við mbl.is í gær. „Ég er búinn að synda núna 220 km. Á sunnudag verður hann búinn að hlaupa 1.456 km, hjóla 5.700 km og synda 240 km frá því heimsmetstilraunin hófst 9. febrúar á þessu ári.

„Þetta eru nokkrir hringir í kringum Ísland,“ segir Jón Eggert en á þessum tíma hefur hann ekki misst einn dag úr hreyfingu, enda væri heimsmetstilraunin þá ógild. Jón Eggert byrjaði á að hlaupa tæpa 20 km á dag frá 9. febrúar til loka aprílmánaðar, næst tóku hjólreiðarnar við og í byrjun júlí hófst svo sundið sem hann er nú að ljúka.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort hann sé ekki orðinn svolítið þreyttur eftir svo langan tíma án hvíldar og svarar Jón Eggert því játandi. „Þetta er orðin svona langþreyta,“ segir hann og kveður hana nokkuð skrýtna. „Lýsingin er sú að tíminn sem maður hefur á hverjum degi milli þess að hjóla, synda eða hlaupa verður mjög stuttur. Tíminn líður mjög hratt og ég skynja það þannig að ég sé alltaf að fara að synda.“

Jón hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við það …
Jón hóf hlaupin í febrúar og var myndaður við það tilefni. Líkt og sjá má er myndavél og GPS-tæki meðal þess staðalbúnaðar sem bera þarf við heimsmetstilraunina. Ljósmynd/Aðsend

Einu alvörumeiðslin í sundinu

Hann hefur sloppið blessunarlega vel við meiðsli, en á hlaupahluta heimsmetstilraunarinnar lenti Jón Eggert þó í því að öxl­in neitaði um tíma að halda þunga höfuðsins. „Þetta er mjög skrýtið, en hjól­reiðamenn fá þetta stund­um í löng­um vega­lengd­um,“ sagði hann í samtali við mbl.is í apríl. Hann bjargaði málum með því að hlaupa með flug­púða um háls­inn í þrjá daga. Þannig náðu hálsvöðvarn­ir að jafna sig.

Í sundinu hefur hann hins vegar aftur lent í axlarmeiðslum. „Það eru einu alvörumeiðslin sem ég hef lent í,“ segir hann og kveður lækni ekki hafa fyrirskipað sér að hætta. „Ég get haldið áfram og klárað en ég finn fyrir sársauka í öxlinni.“

Spurður hvað hafi verið erfiðast segir Jón Eggert góða og erfiða daga hafa fylgt öllum þremur íþróttagreinum. „Það er engin ein sem hefur verið erfiðari en önnur,“ segir hann.

„Í hjólinu lenti ég í lok maí í því að hjóla í gegnum fyrsta fellibylinn á fellibyljatímabilinu,“ rifjar hann upp, en Jón Eggert er búsettur í Flórída og því ekki óvanur fellibyljum. „Þá kom mjög stór hitabeltislægð. Ég upplifði þetta sem ofboðslega mikla rigningu sem stoppaði ekki. Ég byrjaði því hjólaferðina og endaði í rigningu í fimm daga.“ Þar sem hann þurfti að hjóla með fullt af rafmagnstækjum, eins og GPS-tæki og myndvél vegna heimsmetstilraunarinnar, endaði hann á að kaupa kafaraútbúnað til að verja tækin fyrir rigningunni. „Það gekk upp.“

Sprakk á báðum dekkjum og gírakerfið eyðilagðist

Þá lenti Jón Eggert einnig í því að verða næstum fyrir eldingu í regninu. „Það var svakalegt,“ segir hann. „Það var eldingaveður í um 4 km fjarlægð, síðan sá ég allt í einu blossa rétt hjá mér og um leið sprakk á báðum dekkjunum á hjólinu og gírakerfið að framan eyðilagðist.“ Hann gat engu að síður lokið hjólatúrnum þann daginn með smá reddingu á dekkjunum. „Ég gat skakklappast með því að nota gírakerfið ekki eins og venjulega, heldur mjakaðist ég heim til að klára,“ rifjar hann upp og er skemmt við minninguna. „Þetta er búið að vera ævintýri.“

Jón Eggert var í gær búinn að synda 220 km, …
Jón Eggert var í gær búinn að synda 220 km, á sunnudag verða kílómetrarnir orðnir 240 og tilrauninni til að setja heimsmet í lengstu þríþrautinni lokið. Ljósmynd/Aðsend

Eins brá Jóni Eggert verulega þegar fanga­búðum fyr­ir börn var komið upp á hjól­reiðaleið hans í Miami. „Það var ótrúlegt og engin leið að sjá það fyrir,“ segir hann, en leiðina sem lá í nágrenni gamalla hernaðarmannvirkja valdi hann af því að þar var lítil umferð.

„Síðan gerist það bara einn daginn að þá var fullt af fjölmiðlum þar fyrir utan. Daginn eftir stöðvaði lögregla mig síðan og þá var búið að loka svæðinu af.“ Í kjölfarið þurfti hann að taka krók fram hjá svæðinu og fékk þá leiðarbreytingu samþykkta hjá Guinness.

Engin orka eftir til að kaupa í matinn

Þegar Jón Eggert hóf heimsmetstilraunina átti Norma Basistas, sem er frá Kanada og Mexíkó, metið. Um miðjan maí hafði Guinness hins vegar samþykkt met sem Ilaria Corli frá Ítaliu setti sumarið 2017. „Það tekur Guinness um ár að fara yfir gögnin,“ segir hann og kveðst ekki búast við að fá sitt met staðfest fyrr en í ágúst- september á næsta ári.

Jón Eggert býrð á Flórída líkt og áður sagði og starfar þar sem kerfisfræðingur. Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvernig gangi að setja svona heimsmet í lengstu þríþrautinni með fullri vinnu. „Maður gerir ekkert annað en að vinna og taka vegalengd dagsins,“ segir Jón Eggert. „Tæknin í dag er orðin þannig, að minnsta kosti í minni vinnu, að það er hægt að vinna meðfram.“

Stundum geti þetta þó verið nokkuð flókið, til að mynda í hlaupinu þar sem lítil orka hafi verið afgangs. „Þá var engin orka eftir til dæmis til að fara og kaupa í matinn. Þess vegna fékk ég mat sendan heim frá Wholefoods með Amazon og þurfti því ekkert að fara í búð þann tíma. Í sundinu er hins vegar mun rýmri tími aflögu og þá sé ég um þetta sjálfur.“

Má ekki hætta strax

Spurður hvort ekki myndist tómarúm þegar verkefni af þessari stærðargráðu lýkur segir hann það óneitanlega gerast. „Líkaminn er orðinn vanur svo mikilli hreyfingu, síðan þegar maður hættir allt í einu þá koma fráhvarfseinkenni og þau geta verið slæm,“ segir Jón Eggert og kveður það hafa gerst hjá sér eftir að hann gekk hringinn í kringum Ísland. „Ég hafði ekki hugmynd um þetta eftir gönguna og var því nokkuð lengi að jafna mig.“ Galdurinn sé að halda áfram að hreyfa sig eitthvað. „Ég má ekki hætta alveg strax, þannig að ég verð að hjóla eða hlaupa eitthvað.“

Næg vinna verður líka fram undan við að koma gögnunum til skila til Guinness. „Ein af reglunum hjá Guinness er að taka upp á myndband allt heimsmetaferlið,“ segir Jón Eggert. „Gögnin sem ég er með eftir hlaupin, sundið og hjólreiðarnar eru núna komin upp í 26 terabæti sem er alveg gríðarlegt magn og bara það að senda þeim svo mikið gagnamagn er afrek í sjálfu sér.“

Hann er heldur ekki hættur að setja met og veltir nú fyrir sér að slá núverandi heimsmet í fjölda hálfmaraþonvegalengda. „Núverandi heimsmet í fjölda hálfmaraþonvegalengda er 53 dagar. Þegar ég tók hlaupið þá var hringurinn minn tæpir 20 km og ég hljóp þá vegalengd í 80 daga, þannig að ég ætti alveg að geta slegið þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert