Samráðshópur fjögurra ráðuneyta um kerfislæg mikilvæg fyrirtæki hefur frá síðastliðnu vori skoðað gerð viðbragðsáætlana vegna hugsanlegra áfalla í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja sem gætu kallað á viðbrögð af hálfu stjórnvalda.
Meginverkefni samráðshópsins eru að skoða áhrif þeirra breytinga sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi og gjaldeyrissköpun á síðustu árum, meðal annars í tengslum við ferðaþjónustu, samgöngur og nýsköpun sem og mögulegan viðbúnað stjórnvalda við áföllum í rekstri mikilvægra atvinnufyrirtækja.
Þetta kemur fram í skriflegu svari frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem leiðir vinnu hópsins.
Önnur ráðuneyti sem eiga aðild að hópnum eru forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
Samráðshópurinn byrjaði á því að skoða íslensk flugfélög og ferðaþjónustu. Afrakstur þeirrar vinnu var kynntur síðastliðinn mánudag þegar ráðherrar funduðu með hópnum vegna stöðu íslensku flugfélaganna.
Til skoðunar eru einnig fjarskipta- og veitufyrirtæki, skipafélög sem og önnur fyrirtæki sem eru „svo þýðingarmikil í íslensku efnahagslífi að tímabundin röskun á þjónustu þeirra hefur mikil áhrif á notendur og rekstur annarra aðila með efnahagslegu tjóni fyrir samfélagið allt.“
Fimm fastafulltrúar eiga sæti í samráðhópnum en auk þeirra eru gestir og aðrir fulltrúar boðaðir eftir þörfum hverju sinni. Fastafulltrúarnir eru:
Gunnar Örn Indriðason, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu,
Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu,
Sigurður Páll Ólafsson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu,
Sigrún Ólafsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu og
Ólafur Teitur Guðnason, aðstoðarmaður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
Samkvæmt upplýsingum frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu er ekki greitt sérstaklega fyrir þátttöku í samráðshópnum.
Vinna við að meta þörf fyrir og koma með tillögur að viðbúnaðaráætlunum stendur nú yfir. Reiknað er með að gera grein fyrir helstu niðurstöðum og tillögum hópsins fyrir lok septembermánaðar.