Undirritaður hefur verið þriggja ára rammasamningur um tannlækningar fyrir aldraða og öryrkja sem tekur gildi 1. september næstkomandi. Samningurinn tryggir samræmda verðlagningu og að við gildistöku hans hækki greiðsluþátttaka sjúkratrygginga á heildina litið úr því að vera 27% í rúm 50% þess sem þjónustan kostar.
Til að tryggja þetta mun heilbrigðisráðherra setja reglugerð um greiðsluþátttökuna. Miðað við verðlagsforsendur fjárlaga og umfang þjónustunnar árið 2018 er gert ráð fyrir að árlegt framlag úr ríkissjóði vegna hennar hækki úr 700 m.kr. í 1.700 m.kr. Þetta kemur fram í frétt á vef Sjúkratrygginga Íslands.
Fyrir hvern og einn verður almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna kostnaðar við tannlækningar skv. samningnum 50% af umsömdu verði. Í ákveðnum tilvikum, s.s. vegna slysa og sjúkdóma, getur hún orðið hærri, en mögulega lægri í öðrum tilvikum, svo sem vegna tannplanta og krónugerðar. Vegna öryrkja og aldraðra sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum verður hún á hinn bóginn almennt 100% af umsömdu verði. Hið sama gildir fyrir andlega þroskahamlaða einstaklinga 18 ára og eldri, þó með þeim fyrirvara að áður en til greiðslu kemur þarf að sækja sérstaklega um hana.
Samningurinn markar tímamót því ekki hefur verið í gildi samningur um tannlæknaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja frá árinu 2004, en þá rann síðasti samningur út. Frá þeim tíma hefur verið í gildi sérstök endurgreiðslugjaldskrá sem greiðsluþátttakan hefur byggst á. Hún hefur ekki fylgt verðlagsþróun með þeim afleiðingum að greiðsluþátttakan hefur farið lækkandi með tímanum. Samhliða rammasamningnum undirrita Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Tannlæknafélag Íslands (TFÍ) sérstakan samning um faglegt samstarf.
Fyrirkomulag skráningar aldraðra og öryrkja hjá ákveðnum tannlækni verður með þeim hætti að þeir sem leitað hafa til hans eftir 1. janúar 2017 verða skráðir hjá honum. Þeir sem ekki fá sjálfkrafa skráningu og þeir sem vilja breyta skráningu sinni geta óskað eftir að tannlæknir skrái þá í næstu komu eða gengið sjálfir frá skráningu í Réttindagátt á vef SÍ.