„Við þurfum núna að leggjast yfir málið. Ég mun biðja Vegagerðina að setjast yfir það hvaða leið er skynsamlegaust og hvenær er skynsamlegast að hrinda verkefninu af stað. Ráðuneytið mun einnig koma að þeirri vinnu.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra aðspurður hver verði næstu skref varðandi tvöföldun Hvalfjarðarganga. Vegagerðin og verkfræðistofan Mannvit skiluðu í vor skýrslu þar sem niðurstaðan var sú að gangaleið með tvístefnuumferð væri langhagkvæmasti kostur tvöföldunar.
„Fyrsta skrefið er að ríkið er að taka yfir núverandi göng um þarnæstu mánaðamót væntanlega,“ segir Sigurður Ingi. Hin nýja skýrsla sé svo grundvöllur fyrir umræðuna sem framundan er um ný göng. „Eins og fram kemur í skýrslunni höfðu menn árið 2008 verið með sambærilegar hugmyndir en síðan þá hafa öryggisstaðlar breyst. Í ljósi þess eru þessir nýju kostir allnokkru öðruvísi en þegar menn voru að skoða tvöföldun árið 2008.“
Starfshópur er að skoða hvaða kostir eru fyrir hendi varðandi gjaldtöku til að flýta framkvæmd umferðarmannvirkja. Hann mun væntanlega skila niðurstöðum fyrir árslok. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Ingi að ný Hvalfjarðargöng yrðu væntanlega ekki á fyrstu 3-5 árum nýrrar samgönguáætlunar, en væru engu að síður aðkallandi eins og svo mörg önnur verkefni.