Oddvitar minnihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur eru hvassir í gagnrýni sinni á borgarritara, skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar og borgarstjóra og taka undir þá gagnrýni sem kom fram í máli tveggja sérfræðinga í opinberri stjórnsýslu í Morgunblaðinu í gær.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, segir m.a. í Morgunblaðinu í dag: „Borgarstjóri beitir bara embættismönnunum fyrir sig og það kristallast algjörlega í þessu máli. Svo virðist vera sem embættismennirnir séu alls ekki hlutlausir, heldur vinni pólitísk skítverk fyrir borgarstjóra, sem á að hafa eftirlit með embættismannakerfinu.“
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir m.a.: „Þetta er staðfesting á því að þessi framganga embættismannanna er ámælisverð.“ Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vísar allri gagnrýni á bug, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.