Sérkennilegur hvalur dreginn að landi

Samsett mynd frá Hard to Port.
Samsett mynd frá Hard to Port. Ljósmynd/Hard to Port

Sérkennilegur hvalur var dreginn að landi í Hvalstöðinni í Hvalfirði í morgun.

Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar var á staðnum við mælingar og sýnatöku. Hann tilkynnti strax um atvikið og gerði viðeigandi athuganir á dýrinu, að því er kemur fram í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Hvalnum svipaði mjög til hvals sem veiddist 7. júlí síðastliðinn og staðfest hefur verið að var blendingur langreyðar og steypireyðar.

Bráðabirgðaniðurstaða starfsmanns Hafrannsóknastofnunar er sú að hvalurinn sem landað var í morgun sé blendingur. Stofnunin hefur þegar hafið vinnu við að greina sýni þannig að hægt verði að staðfesta með erfðafræðilegum aðferðum hvort sú greining sé rétt. Búast má við að niðurstöður þeirrar greiningar liggi fyrir í byrjun næstu viku.

Sá 98. í röðinni

Að sögn hvalaverndunarsamtakanna Hard to Port drápu hvalveiðimenn Hvals ehf. kelfda langreyðarkú og afkvæmi hennar, ásamt blendingshvalnum.

Þau segja hinn líklega blendingshval vera þann 98. í röðinni sem landað hefur verið í sumar.

„Þegar ég kom að hvalastöðinni snemma í morgun vakti skrokkur af hval nr. 98 strax athygli mína vegna einkennandi útlits sem svipar til blendingshvals. Ég náði myndum af þessum útlitseinkennum eins og kjálka og litarhafti sem bentu sterklega til þess að ekki væri um hreina langreyð að ræða,“ segir Arne Feuerhahn, formaður samtakanna, í tilkynningu.

Þar segir að hinn hvalurinn sem verið var að landa hafi verið kelfd langreyðarkýr sem sé önnur kelfda kýrin sem drepin er í þessari viku.

„Að auki lítur út fyrir að kjöti af blendingshvalnum og langreyðinni sem landað var á sama tíma var blandað saman í verkun á hvalastöðinni en það er með öllu ólöglegt og þýðir að kjötið af hvorugu dýri er hæft til útflutnings,“ segir Feuerhahn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert