Skoða „mjög stór“ mál gegn Magnúsi

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.
Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon.

„Ég get staðfest að við erum að skoða alvarlega að fara í frekari mál. Ég hugsa að það muni ekki fara fram hjá fjölmiðlum þegar það gerist,“ segir Geir Gestsson, skiptastjóri þrotabús United Silicon, spurður hversu mörg mál til viðbótar þrotabúið ætli að höfða gegn Magnúsi Garðarssyni, fyrrverandi forstjóra félagsins.

Hann segir að málin séu nokkur talsins og mjög stór.

Nú þegar hefur þrotabúið höfðað tvö mál gegn Magnúsi vegna meintra fjársvika, annað upp á 4,2 milljónir evra, eða um hálfan milljarð, og það síðara vegna 570 þúsund evra sem nær til bankareikninga í Danmörku, eins og RÚV sagði fyrst frá í gær. 

Skýrslur teknar af mönnum

Bæði málin voru höfðuð vegna skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG og voru þau bæði kærð til embættis héraðssaksóknara, þar sem þau eru til rannsóknar.

Spurður segist Geir ekki vita hvenær rannsókninni þar lýkur. Samkomulag hefur verið gert á milli lögmanna þrotabúsins og Magnúsar um að málunum verði frestað þangað til rannsókninni lýkur og búið verður að varpa frekara ljósi á það sem gerðist.

Hann kveðst ekki vita til þess að héraðssaksóknari hafi gert húsleitir vegna málsins sem kom upp í Danmörku en segir að skýrslur hafi verið teknar af mönnum.

Verksmiðja United Silicon.
Verksmiðja United Silicon. mbl.is/RAX

Lagt inn á reikninga í Spar Nord

Að sögn Geirs var KPMG ráðið til að skila skýrslu um málefni United Silicon á meðan félagið var í greiðslustöðvunarferli sem hófst um miðjan ágúst í fyrra.

Skýrslunni var skilað um miðjan nóvember sama ár en um tveimur mánuðum síðar, eða 22. janúar síðastliðinn, fór Sameinað sílicon ehf. í gjaldþrot.

KMPG komst að þeirri niðurstöðu að möguleiki kynni að vera á fjárdrætti af hálfu Magnúsar upp á 4,2 milljónir evra. Eftir útgáfu skýrslunnar uppgötvaðist meira og var tilkynnt um það sérstaklega í viðbótarskýrslu. Þar er átt við dönsku reikningana og var seinna málið höfðað vegna þeirra.

Geir segir að samkvæmt skýrslunni hafi verið stofnaðir reikningar hjá danska bankanum Spar Nord. Þangað hafi borist greiðslur sem áttu að berast til Sameinaðs sílicons ehf. Eftir það voru greiðslurnar fluttar þaðan til félagsins Tomahawk Development sem er í eigu Magnúsar.

Ljósmynd/Víkurfréttir

Magnús undirritaði skjal í Amsterdam

Fyrr á árinu höfðaði þrotabú United Silicon annað mál gegn félaginu United Silicon Holding í Hollandi vegna vátrygginga.

Geir bendir á að tvenns konar tjón hafi orðið á rekstri Sameinaðs sílicons ehf., annars vegar tjón á útbúnaði og hins vegar rekstrarstöðvunartjón. Hvort tveggja féll undir skilmála vátryggingar sem félagið var með hjá hollenska tryggingafyrirtækinu Marsh. Það samþykkti að greiða þrotabúinu fjárhæðina, um 112 milljónir króna, en fyrst vantaði undirritun frá United Silicon Holding í Hollandi til að greiðslan færi í gegn.

Til þess að fá samþykkið höfðaði Sameinað sílicon ehf. mál gegn félaginu. Fyrirsvarsmaður þess, Magnús Garðarsson,mætti í þinghald í Amsterdam og undirritaði skjal um samþykki fyrir greiðslunni.

Hættu við 59 milljóna kolamál

Taka átti annað mál, sem tengist Clean Carbon, fyrir í héraðsdómi í gær. Fyrirtækið taldi sig eiga einni kol hjá United Silicon að verðmæti 59 milljónir króna. Geir neitaði þeirri kröfu og því átti að fara með málið fyrir héraðsdóm. Fyrir þinghaldið í gær féll Clean Carbon aftur á móti frá kröfu um eignarrétt á kolunum.

Kröfuhafarnir voru 156 

Spurður segir Geir að 156 kröfuhafar hafi lýst yfir kröfum í þrotabú United Silicon en fresturinn til þess rann út 30. mars. Stærsti kröfuhafinn var Arion banki með 9,5 milljarða kröfu og næstir á eftir honum komu BIT Fondel, Tenova og ÍAV.

Lýstar kröfur í þrotabúið námu alls um 23,5 milljörðum króna.

Afstaða var tekin til forgangskrafna en ekki til almennra krafna. Níu milljarða forgangskröfur Arion banka voru samþykktar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka