Tekinn á 133 km hraða

mbl.is/Arnþór

Rúmlega þrjátíu ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Sá sem hraðast ók mældist á 133 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Nokkuð var um að lögregla hefði afskipti af ökumönnum sem ekki voru með öryggisbelti spennt eða að þeir töluðu í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Skráningarnúmer voru fjarlægð af átta bifreiðum sem ýmist voru óskoðaðar eða ótryggðar. Einn ökumaður var með fjögur negld dekk undir bifreið sinni.

Norðan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar kannaði lögreglan ökuréttindi og ástand ökumanna í vikunni. Um 200 bifreiðar sem voru á leið frá flugstöðinni voru stöðvaðar og voru allir ökumennirnir með sitt á hreinu, nema fimm sem höfðu ökuskírteini ekki meðferðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert