„Það var allt í rúst“

Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð.
Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Stór jeppi með kerru þeytt­ist út í skurð, þak­plöt­ur fuku fleiri hundruð metra og girðing­ar lögðust á hliðina þegar skýstrók­ar fóru yfir bæ­inn Norður­hjá­leigu í Álfta­veri við Kúðafljót síðdeg­is í dag.

Hús­ráðend­ur voru að heim­an er veðrið gekk þar yfir, en mikl­ar skemmd­ir blöstu við þeim við heim­kom­una. „Við vor­um ekki heima akkúrat þegar þetta gerðist, en ná­granna­kona hringdi í okk­ur og lét vita að það væru far­in að fjúka þök hjá okk­ur. Þá var ekki einu sinni rok hjá henni,“ seg­ir Sæ­unn Kára­dótt­ir, bóndi í Norður­hjá­leigu.

Næsti bær er að henn­ar sögn í um hundrað metra fjar­lægð, en veðrið fór ein­göngu yfir Norður­hjá­leigu.

„Aðkom­an er við kom­um heim í dag var ólýs­an­leg, það var allt í rúst,“ seg­ir Sæ­unn og kveðst ein­fald­lega orðlaus. „Ég vissi ekki að þetta væri hægt og á svona af­mörkuðu svæði og vita svo af ná­grönn­un­um hér í kring í sól og blíðu hér rétt hjá.“

Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir.
Þök fuku af sjö hús­um er skýstrók­arn­ir fóru yfir. Ljós­mynd/​Sæ­unn Kára­dótt­ir

Sæ­unn hef­ur eft­ir ná­granna sín­um að þrír strók­ar hafi farið yfir Norður­hjá­leigu. „Fyrstu tveir skemmdu í nokkr­ar mín­út­ur og svo var bara dúna­logn þess á milli,“ seg­ir hún. „Það voru senni­lega sjö þök sem skemmd­ust hjá okk­ur,“ bæt­ir Sæ­unn við og seg­ir þak­plöt­ur liggja á víð og dreif, þá liggja girðing­ar á tún­um í kring.

Eng­ar skepn­ur voru hins veg­ar í hús­un­um og varð því ekk­ert tjón á dýr­um.

Til­vilj­un að strók­arn­ir fóru þarna yfir

„Þetta hef­ur aldrei gerst áður, það er al­veg á hreinu,“ seg­ir Sæ­unn er hún er spurð hvort Norður­hjá­leiga sé á erfiðum stað veðurfars­lega. „Þetta er al­gjört flat­lendi, en við erum lægsti bær­inn í þess­ari sveit og ég held að það hafi bara verið til­vilj­un að hann fór akkúrat hérna yfir. Þetta var bara óheppni.“

Spurð hvað taki nú við hjá þeim seg­ir hún að þar sem þetta átti sér stað milli 16 og 17 á föstu­degi hafi allt verið orðið lokað. „Við erum búin að taka mynd­ir af ein­hverju, en ætl­um að skoða þetta bet­ur á morg­un. Lög­regl­an kom líka hingað og tók bæði mynd­ir og skýrslu og svo eru það bara trygg­ing­arn­ar og reyna að átta sig á hver næstu skref eru.“ Þá muni þau vænt­an­lega líka byrja að tína upp þak­plöt­ur og laga girðing­ar til að halda fé inni.

Ekki hægt að sjá þetta fyr­ir

Þor­steinn V. Jóns­son, vakt­haf­andi veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, seg­ir að þarna hafi mynd­ast skýstrokk­ur, nokkr­ir tug­ir metra að stærð, sem hafi verið staðbund­inn og mjög öfl­ug­ur.

„Það var búið að spá að það yrði mik­ill óstöðug­leiki í loft­inu þarna í dag, sem er fóður fyr­ir skúra­bakka,“ seg­ir Þor­steinn.

„Við sáum að það var mikið af eld­ing­um sem voru að mæl­ast þarna í dag og svo sáum við líka að það var spáð miklu upp­streymi og skúra­bökk­um síðdeg­is og það eru þess­ir stóru skúra­bakk­ar sem valda þessu veðri. Þetta er mjög óvana­legt og áhuga­vert veður,“ seg­ir hann og kveður sjald­gæft að skúra­bakk­ar verði svona öfl­ug­ir.

Þor­steinn seg­ir ekki hafa verið hægt að sjá þetta fyr­ir.  

„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það …
„Aðkom­an er við kom­um heim í dag var ólýs­an­leg, það var allt í rúst,“ seg­ir Sæ­unn og kveðst ein­fald­lega orðlaus. Ljós­mynd/​Sæ­unn Kára­dótt­ir
Þakplötur liggja á víð og dreif við Norðurhjáleigu.
Þak­plöt­ur liggja á víð og dreif við Norður­hjá­leigu. Ljós­mynd/​Sæ­unn Kára­dótt­ir
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert