„Það var allt í rúst“

Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð.
Bæði jeppinn og kerran þeyttust út í skurð. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Stór jeppi með kerru þeyttist út í skurð, þakplötur fuku fleiri hundruð metra og girðingar lögðust á hliðina þegar skýstrókar fóru yfir bæinn Norðurhjáleigu í Álftaveri við Kúðafljót síðdegis í dag.

Húsráðendur voru að heiman er veðrið gekk þar yfir, en miklar skemmdir blöstu við þeim við heimkomuna. „Við vorum ekki heima akkúrat þegar þetta gerðist, en nágrannakona hringdi í okkur og lét vita að það væru farin að fjúka þök hjá okkur. Þá var ekki einu sinni rok hjá henni,“ segir Sæunn Káradóttir, bóndi í Norðurhjáleigu.

Næsti bær er að hennar sögn í um hundrað metra fjarlægð, en veðrið fór eingöngu yfir Norðurhjáleigu.

„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það var allt í rúst,“ segir Sæunn og kveðst einfaldlega orðlaus. „Ég vissi ekki að þetta væri hægt og á svona afmörkuðu svæði og vita svo af nágrönnunum hér í kring í sól og blíðu hér rétt hjá.“

Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir.
Þök fuku af sjö húsum er skýstrókarnir fóru yfir. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

Sæunn hefur eftir nágranna sínum að þrír strókar hafi farið yfir Norðurhjáleigu. „Fyrstu tveir skemmdu í nokkrar mínútur og svo var bara dúnalogn þess á milli,“ segir hún. „Það voru sennilega sjö þök sem skemmdust hjá okkur,“ bætir Sæunn við og segir þakplötur liggja á víð og dreif, þá liggja girðingar á túnum í kring.

Engar skepnur voru hins vegar í húsunum og varð því ekkert tjón á dýrum.

Tilviljun að strókarnir fóru þarna yfir

„Þetta hefur aldrei gerst áður, það er alveg á hreinu,“ segir Sæunn er hún er spurð hvort Norðurhjáleiga sé á erfiðum stað veðurfarslega. „Þetta er algjört flatlendi, en við erum lægsti bærinn í þessari sveit og ég held að það hafi bara verið tilviljun að hann fór akkúrat hérna yfir. Þetta var bara óheppni.“

Spurð hvað taki nú við hjá þeim segir hún að þar sem þetta átti sér stað milli 16 og 17 á föstudegi hafi allt verið orðið lokað. „Við erum búin að taka myndir af einhverju, en ætlum að skoða þetta betur á morgun. Lögreglan kom líka hingað og tók bæði myndir og skýrslu og svo eru það bara tryggingarnar og reyna að átta sig á hver næstu skref eru.“ Þá muni þau væntanlega líka byrja að tína upp þakplötur og laga girðingar til að halda fé inni.

Ekki hægt að sjá þetta fyrir

Þorsteinn V. Jónsson, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að þarna hafi myndast skýstrokkur, nokkrir tugir metra að stærð, sem hafi verið staðbundinn og mjög öflugur.

„Það var búið að spá að það yrði mikill óstöðugleiki í loftinu þarna í dag, sem er fóður fyrir skúrabakka,“ segir Þorsteinn.

„Við sáum að það var mikið af eldingum sem voru að mælast þarna í dag og svo sáum við líka að það var spáð miklu uppstreymi og skúrabökkum síðdegis og það eru þessir stóru skúrabakkar sem valda þessu veðri. Þetta er mjög óvanalegt og áhugavert veður,“ segir hann og kveður sjaldgæft að skúrabakkar verði svona öflugir.

Þorsteinn segir ekki hafa verið hægt að sjá þetta fyrir.  

„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það …
„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það var allt í rúst,“ segir Sæunn og kveðst einfaldlega orðlaus. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
Þakplötur liggja á víð og dreif við Norðurhjáleigu.
Þakplötur liggja á víð og dreif við Norðurhjáleigu. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert