Fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði hækka í flestum sveitarfélögum milli ára með hærra fasteignamati. Getur munað tugum þúsunda á ári.
Samkvæmt útreikningum Þjóðskrár Íslands fyrir Byggðastofnun er hækkunin á annan tug prósenta í nokkrum sveitarfélögum. Hún var sögð mest í Grindavík, eða 17,6%, sem talið var þýða 42 þús. á ári. Sveitarfélagið hafnar þeirri útkomu í umfjöllun um álagningu fasteignagjalda í Morgunblaðinu í dag.
Akranes sker sig úr á listanum. Þar lækka gjöldin um 8,21%.
Fasteignagjöldin eru reiknuð út samkvæmt núgildandi fasteignamati sem gildir frá 31. desember 2017 og skv. álagningarreglum 2018. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 fermetri að grunnfleti og stærð lóðar 808 fermetrar. Ber í þessu efni að hafa í huga að fasteignamat fyrir 2018 hækkaði um 13,8% frá fyrra ári. Það hækkar svo um 12,8% fyrir árið 2019. Matið er því að hækka um tugi prósenta á fáum árum.