Stór borgarísjaki er nú fastur á besta blettinum, segir Guðmundur Gísli Geirdal á Gísla KÓ-10 í samtali við mbl.is. Borgarísjakinn er við Hornbanka um 40 mílur norðaustur af Horni og hefur hann strandað á um það bil 100 metra dýpi. „Þetta er náttúrulega ógurlega stórt. Ég fór alveg að honum og það var að brotna aðeins úr honum,“ segir Guðmundur.
„Hann er þarna á bletti þar sem ég hef verið að veiða voðalega stóran fisk og ég fór alveg upp að honum og náði þar í svolítið mikið af þessum stóra. Fékk alveg fjögur kör af fiski sem var allur yfir 20 kíló. Það er náttúrulega bara ævintýri,“ segir hann.
Guðmundur hefur verið ásamt syni sínum Axel Erni Guðmundssyni, sem er á Glæ KÓ-9, að veiða þorsk á svæðinu í kringum ísjakann síðustu daga. „Þetta er voða gaman að vera svona saman að þessu,“ segir Guðmundur.
Nokkuð stór borgarísjaki með tvo turna er nú staddur um 6 kílómetra norðvestur af Reykjaneshyrnu, um 18 kílómetra frá landi og hefur færst nokkuð vestar í dag samkvæmt tilkynningu Veðurstofu Íslands.