15 milljónir áætlaðar í árstekjur

Sólrún Graham-Parker.
Sólrún Graham-Parker.

„Áætlunin mín hækkaði í ár. Ég var með 13 milljónir áætlaðar í fyrra og núna er ég allt í einu kominn með 15,5 milljónir króna áætlaðar í árstekjur, sem eru fjórföld árslaun hjá mér,“ segir Sólrún Graham-Parker, verkefnisstýra við háskólann í Mannheim, í Morgunblaðinu í dag.

Sólrún er meðal þeirra sem deila reynslu sinni í Facebook-hópnum Greiðendur LÍN námslána í útlöndum. Þar glíma margir við þann vanda að ná ekki að skila inn tekjuupplýsingum til LÍN innan tiltekins tíma. Skila þarf inn tekjuupplýsingum fyrir 1. ágúst vegna tekjutengdrar afborgunar 1. september. Margir greina frá því að þeir hafi fengið áætlaðar árstekjur allt frá 12 til 16 milljóna króna.

Samkvæmt 10. grein laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna er stjórn sjóðsins heimilt að áætla tekjustofn lánþega til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu ef tekjuupplýsingar berast ekki frá lánþega. Sólrún bíður nú eftir því að þýsk skattayfirvöld sendi henni skattayfirlit svo hún geti skilað upplýsingum til LÍN til þess að fá upphæð tekjutengdrar afborgunar breytt.

„Ég skilaði öllu inn fyrir tiltekinn tíma í fyrra en fékk samt tekjuáætlun. Ég var svo hissa á þessu. Svo koma innheimtubréf frá LÍN og alltaf hækkaði skuldin,“ segir Sólrún.

Eftir langt samskiptaferli við LÍN í fyrra barst loks endurútreiknuð tekjutengd afborgun í október það ár. „Þá þurfti ég ekki að borga nema einn sjötta af því sem krafist var í upphafi,“ segir Sólrún. Fyrir endurútreikning tekna Sólrúnar var afborgun lánsins um 600 þúsund kr. „Það sem truflar mig mest er að ég skil engan veginn af hverju er ekki hægt að miða út frá tekjum síðastliðinna ára og af hverju þessi tekjuáætlun er svona fjarstæðukennd.“

Blaðamaður sendi LÍN fyrirspurn í nokkrum liðum í síðustu viku um hvernig sjóðurinn áætlar tekjur lánþega. Ekki höfðu borist svör við þeim fyrirspurnum í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert