Húseigendatrygging og sérstök óveðurstrygging bætir tjón líkt og það sem varð á bænum Norðurhjáleigu í Álftaveri við Kúðafljót á föstudag er skýstrókar fóru þar yfir. Brunatrygging, sem er eina lögboðna tryggingin, og náttúruhamfaratryggingin sem henni fylgir gera það hins vegar ekki. Þetta segir Þorsteinn Þorsteinsson, matsmaður eignatjóna hjá VÍS.
Töluvert tjón varð á bænum Norðurhjáleigu er skýstrókurinn fór þar yfir. Stór jeppi með kerru þeyttist út í skurð, þakplötur fuku fleiri hundruð metra og girðingar lögðust á hliðina er strókarnir fóru þar yfir. Sæunn Káradóttir, bóndi á bænum, sagði í samtali við mbl.is að þau hafi ekki verið með foktryggingu og tryggingafélag þeirra líti því svo á að þeim beri að bera tjónið.
Þorsteinn segir húseigendatryggingu vera notaða til að tryggja venjulegt íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði í þéttbýli. „Þar er verið að tryggja gegn vatni, skemmdum af völdum innbrota og svo óveðri,“ segir hann og kveður um frjálsa tryggingu að ræða. „Húseignir sem eru þannig tryggðar myndu fást bættar vegna atburðar líkt og varð á Norðurhjáleigu.“
Fyrir útihús í sveitum sé hins vegar algengt að bændur kaupi sérstaka óveðurstryggingu. „Þær byggingar eru almennt mjög einfaldar og sjaldan mikil hætta á vatnstjóni eða innbrotum. Þannig að það er yfirleitt bara tekin sjálfstæð óveðurstrygging á svoleiðis hús.“
Þorsteinn segir frekar algengt að bændur séu með slíka tryggingu. Það eru þó ekki allir með hana,“ bætir hann við. Það sé líka alltaf nokkuð um VÍS fái tilkynningar um óveðurstjón.
„Það eru alltaf nokkrir slíkir atburðir á hverju ári,“ segir Þorsteinn og rifjar upp að síðasta dæmið í seinni tíma sögu um slíkt tjón á landsvísu sé frá 3. febrúar 1991 en þá hafi mikil bræla gengið yfir landið.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/08/24/thad_var_allt_i_rust/
„Síðan hefur verið hellingur af minni atburðum, eins og t.d. þeim sem urðu síðasta vetur, en þá var kannski tilkynnt um á bilinu 20-50 tjón.“ Segir Þorsteinn tjónskostnað vegna þessara minni atburða nema á bilinu 150-300 milljónum í heildina. „Á meðan yrði tjónskostnaður vegna atburðarins frá 1991 um 1,5 milljarðar ef hann væri framreiknaður,“ útskýrir hann. Í dag yrði kostnaðurinn vegna atburðar á þeim skala þó væntanlega enn meiri. „Af því að það er búið að byggja svo mikið af áhættusömum byggingum síðan.
Spurður hvort VÍS berist fleiri tilkynningar um foktjón frá einum stað á landinu en öðrum segir hann svo ekki vera. „Það eru náttúrulega þekkt veðrabæli eins og Vestmannaeyjar og undir Eyjafjöllum, en þar eru menn líka almennt með mannvirkin nokkuð varanleg.“