Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir að hafa á um 20 mánaða tímabili villt á sér heimildir í samskiptum við konu á samfélagsmiðlinum Snapchat. Hann hafi fengið hana til að senda sér nektarmyndir og notað þær til að kúga hana til kynmaka með öðrum mönnum.
Maðurinn er einnig sakaður um nauðganir og hann sagður tvívegis hafa haft samræði við konuna er hún var með bundið fyrir augun og hélt að hann væri annar maður, að því er RÚV greindi frá.
Fram kemur í ákærunni að samskipti hans við konuna í gegnum Snapchat hafi hafist í mars 2015 og staðið til ársbyrjunar 2017.
Konan krefst tveggja milljóna króna í skaðabætur frá manninum.
Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag og er þinghaldið í málinu lokað.