Staðbundin atlaga við þvottavélina

Ólafur Björnsson verjandi og Valur Lýðsson, sem ákærður er fyrir …
Ólafur Björnsson verjandi og Valur Lýðsson, sem ákærður er fyrir að bana bróður sínum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Blóð og önnur ummerki um átök voru nær eingöngu bundin við þvottahúsið á heimili Vals Lýðssonar, sem ákærður er fyrir að hafa orðið bróður sínum Ragnari að bana á síðasta degi marsmánaðar. Þetta sagði lögreglufulltrúi sem vann að blóðferilsgreiningu á vettvangi, fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag.

Guðmundur Tómasson, fulltrúi í tæknideild lögreglu, sagði ekki líta út fyrir að lík Ragnars Lýðssonar hefði verið fært til að honum látnum, nema mögulega lítillega. Blóðugur strigaskór fannst í grennd við líkið, en ekki fannst blóð undir skónum, sem bendir til þess að hinn látni hafi hvílt ofan á skónum, að minnsta kosti í einhvern tíma.

Niðurstaða blóðferlagreiningarinnar sjálfrar er samkvæmt Guðmundi á þá leið að Ragnari hafi verið veitt högg, eitt eða fleiri, þar sem hann hafi verið í álútri stöðu eða á fjórum fótum fyrir framan þvottavélina. Þá lítur út fyrir að hann þegar verið með blæðandi sár, því við höggið eða sparkið þeyttist blóð á þvottavélina.

Ragnar Lýðsson lést á heimili bróður síns í Biskupstungum.
Ragnar Lýðsson lést á heimili bróður síns í Biskupstungum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur sagði að engin merki hefðu verið um að blóð hefði verið þrifið af vettvangi og sagði jafnframt líklegt að stór áverki á höfði Ragnars hefði myndast eftir að hann var orðinn liggjandi á gólfinu, er höfuð hans annaðhvort skall í gólfið, eða því var skellt í gólfið.

Verjandi Vals, Ólafur Björnsson, spurði Guðmund að því hvort hann teldi mögulegt, út frá rannsókn á blóðblettum á vettvangi, að Ragnar hefði fallið á þvottavélina. Það taldi Guðmundur ósennilegt.

Guðmundur telur að blóð sem var á sokkum ákærða megi útskýra með því að Valur hafi sparkað ítrekað í síðu Ragnars, en fram kom í máli Kolbrúnar Benediktsdóttur saksóknara að krufning hefði leitt í ljós að nær öll rifbein á hægri síðu Ragnars hefðu verið brotin.

Lítil ummerki utan þvottahússins

Bæði Guðmundi og Ragnari Jónssyni, öðrum lögreglufulltrúa sem kom að blóðferlagreiningu og rannsóknum á vettvangi, kom það á óvart að í ljósi þess að meintur gerandi hefði verið í blóðugum sokkum, hefðu ekki fundist teljandi merki um að blóð hefði dreifst um húsið er Valur gekk þar um.

Spurði Kolbrún Ragnar að því hvort það mætti skýra með því að blóðið á sokkunum hefði verið þurrt er meintur gerandi gekk um húsið. Það sagði Ragnar að gæti mögulega passað.

Ragnar sagði að svo virtist vera sem atlagan að Ragnari hefði verið mjög staðbundin, fyrir framan þvottavélina í þvottahúsinu að Gýgjarhóli II.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert