Stórt sumarhús við Þingvallavatn, Grafningsmegin, er alelda en fólk í nærliggjandi bústað tilkynnti um eldinn skömmu fyrir hádegi. Auk þess er eldur í gróðri í grennd við sumarhúsið en slökkviliðsmenn telja sig ráða við eldinn.
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri í Árnessýslu, segir að þröngt sé á staðnum en slökkviliðsmenn frá Selfossi og Laugarvatni þurftu að saga niður tré til að koma dælubíl á vettvang.
Ekki er hægt að segja til um eldsupptök á þessari stundu og ekki er vitað til þess að fólk hafi verið í bústaðnum sem varð eldinum að bráð.