„Vilja ekkert fyrir okkur gera“

Bæði jeppinn og kerran sem þeyttust út í skurð liggja …
Bæði jeppinn og kerran sem þeyttust út í skurð liggja þar enn, enda telja þau það skýrt dæmi um kraftinn. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

„Það er búið að hafa samband við okkar tryggingafélag og senda inn einhvers konar tilkynningu um tjón á netinu,“ segir Sæ­unn Kára­dótt­ir, bóndi í Norður­hjá­leigu, í Álfta­veri við Kúðafljót. „Af því að við erum ekki með svonefnda foktryggingu þá vilja þeir ekkert fyrir okkur gera.“ 

Stór jeppi með kerru þeyttist út í skurð, þakplötur fuku fleiri hundruð metra og girðingar lögðust á hliðina þegar skýstrókar fóru yfir bæinn síðdegis á föstudag. Veðrið fór eingöngu yfir Norðurhjáleigu og sagði Sæunn í samtali við mbl.is á föstudagskvöld að ekki hefði einu sinni verið rok á nágrannabæjunum.

Samkvæmt skilgreiningu tryggingafélagsins ber bændum Norðurhjáleigu að bera allt tjónið og segir Sæunn það óneitanlega vera áfall. „Það koma auðvitað óveður hér og maður hefur alltaf bara reynt að passa að það sé ekkert sem geti fokið, til þess að þurfa ekki að eyða í einhverja tryggingu og það hefur alltaf sloppið. Þetta er hins vegar eitthvað sem ég held að sé ekki hægt að tryggja sig fyrir.“

Eiga von á veðurfræðingum að meta aðstæður

Sæunn segir þau ekki enn farin að taka saman hversu mikið tjónið er, en allt var í rúst er þau komu heim á föstudag og þök m.a. skemmd á sjö húsum. „Við höfum ekkert farið í gegnum þetta peningalega, en maður sér hvað er farið og á svo eftir að gera sér grein fyrir hvað á að gera við þessi hús sem þökin fóru alveg af. Þetta eru hús sem hafa alltaf staðið allt af sér og stóð ekkert til að breyta neinu hjá þeim.“ Þau hús sem hýsa gripi og annað slíkt verði þau hins vegar að lappa upp á fyrir veturinn.

Spurð hvort að þetta muni hafa áhrif á búsetu þeirra á Norðurhjáleigu segir Sæunn þau ekki vera farin að átta sig almennilega á því. „Það þarf að skoða betur hvernig þetta verður,“ segir hún. „Við eigum þó von á veðurfræðingum hingað á morgun sem ætla að skoða og meta aðstæður, vindstyrk og fleira.“

Þá ætla þau líka að setja sig aftur í samband við Náttúruhamfaratryggingu Íslands. „Okkur finnst þetta klárlega falla undir hana, þó að það standi ekkert um þetta í lögum. Þetta hefur bara ekki verið til hér á landi og auðvitað er ekkert verið að tryggja fyrir einhverju sem hefur ekki verið til.“

Fyrst muni þau þó bíða eftir því hvað veðurfræðingarnir hafa að segja, enda telja þau að álit þeirra eigi að vega þungt.

Strax á laugardag hófust þau handa við að setja girðingar upp aftur, m.a. til að losna við búfénað af hlaðinu. „Síðan fórum við í gær í að tína allt lauslegt hér í kring, til að vera laus við eitthvert meira tjón, af því að við vissum að það var von á vindi í dag,“ segir Sæunn.

Jeppinn er hins vegar enn ofan í skurði. „Hann liggur þar enn þá greyið. Við ætluðum að bíða eftir einhverjum sem kæmi að skoða, því þá er þetta skýrt dæmi um kraftinn. Alla vegana sagði veðurfræðingurinn sem við töluðum við að það þyrfti vind sem væri a.m.k. 50 m/s til að fleygja bíl svona frá sér.“

„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það …
„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það var allt í rúst,“ sagði Sæunn við mbl.is á föstudag. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert