„Vilja ekkert fyrir okkur gera“

Bæði jeppinn og kerran sem þeyttust út í skurð liggja …
Bæði jeppinn og kerran sem þeyttust út í skurð liggja þar enn, enda telja þau það skýrt dæmi um kraftinn. Ljósmynd/Sæunn Káradóttir

„Það er búið að hafa sam­band við okk­ar trygg­inga­fé­lag og senda inn ein­hvers kon­ar til­kynn­ingu um tjón á net­inu,“ seg­ir Sæ­unn Kára­dótt­ir, bóndi í Norður­hjá­leigu, í Álfta­veri við Kúðafljót. „Af því að við erum ekki með svo­nefnda fok­trygg­ingu þá vilja þeir ekk­ert fyr­ir okk­ur gera.“ 

Stór jeppi með kerru þeytt­ist út í skurð, þak­plöt­ur fuku fleiri hundruð metra og girðing­ar lögðust á hliðina þegar skýstrók­ar fóru yfir bæ­inn síðdeg­is á föstu­dag. Veðrið fór ein­göngu yfir Norður­hjá­leigu og sagði Sæ­unn í sam­tali við mbl.is á föstu­dags­kvöld að ekki hefði einu sinni verið rok á ná­granna­bæj­un­um.

Sam­kvæmt skil­grein­ingu trygg­inga­fé­lags­ins ber bænd­um Norður­hjá­leigu að bera allt tjónið og seg­ir Sæ­unn það óneit­an­lega vera áfall. „Það koma auðvitað óveður hér og maður hef­ur alltaf bara reynt að passa að það sé ekk­ert sem geti fokið, til þess að þurfa ekki að eyða í ein­hverja trygg­ingu og það hef­ur alltaf sloppið. Þetta er hins veg­ar eitt­hvað sem ég held að sé ekki hægt að tryggja sig fyr­ir.“

Eiga von á veður­fræðing­um að meta aðstæður

Sæ­unn seg­ir þau ekki enn far­in að taka sam­an hversu mikið tjónið er, en allt var í rúst er þau komu heim á föstu­dag og þök m.a. skemmd á sjö hús­um. „Við höf­um ekk­ert farið í gegn­um þetta pen­inga­lega, en maður sér hvað er farið og á svo eft­ir að gera sér grein fyr­ir hvað á að gera við þessi hús sem þökin fóru al­veg af. Þetta eru hús sem hafa alltaf staðið allt af sér og stóð ekk­ert til að breyta neinu hjá þeim.“ Þau hús sem hýsa gripi og annað slíkt verði þau hins veg­ar að lappa upp á fyr­ir vet­ur­inn.

Spurð hvort að þetta muni hafa áhrif á bú­setu þeirra á Norður­hjá­leigu seg­ir Sæ­unn þau ekki vera far­in að átta sig al­menni­lega á því. „Það þarf að skoða bet­ur hvernig þetta verður,“ seg­ir hún. „Við eig­um þó von á veður­fræðing­um hingað á morg­un sem ætla að skoða og meta aðstæður, vind­styrk og fleira.“

Þá ætla þau líka að setja sig aft­ur í sam­band við Nátt­úru­ham­fara­trygg­ingu Íslands. „Okk­ur finnst þetta klár­lega falla und­ir hana, þó að það standi ekk­ert um þetta í lög­um. Þetta hef­ur bara ekki verið til hér á landi og auðvitað er ekk­ert verið að tryggja fyr­ir ein­hverju sem hef­ur ekki verið til.“

Fyrst muni þau þó bíða eft­ir því hvað veður­fræðing­arn­ir hafa að segja, enda telja þau að álit þeirra eigi að vega þungt.

Strax á laug­ar­dag hóf­ust þau handa við að setja girðing­ar upp aft­ur, m.a. til að losna við bú­fénað af hlaðinu. „Síðan fór­um við í gær í að tína allt laus­legt hér í kring, til að vera laus við eitt­hvert meira tjón, af því að við viss­um að það var von á vindi í dag,“ seg­ir Sæ­unn.

Jepp­inn er hins veg­ar enn ofan í skurði. „Hann ligg­ur þar enn þá greyið. Við ætluðum að bíða eft­ir ein­hverj­um sem kæmi að skoða, því þá er þetta skýrt dæmi um kraft­inn. Alla veg­ana sagði veður­fræðing­ur­inn sem við töluðum við að það þyrfti vind sem væri a.m.k. 50 m/​s til að fleygja bíl svona frá sér.“

„Aðkoman er við komum heim í dag var ólýsanleg, það …
„Aðkom­an er við kom­um heim í dag var ólýs­an­leg, það var allt í rúst,“ sagði Sæ­unn við mbl.is á föstu­dag. Ljós­mynd/​Sæ­unn Kára­dótt­ir
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert