Flókin rannsókn því allt brann til grunna

Frá störfum slökkviliðsmanna við Þingvallavatn í gær.
Frá störfum slökkviliðsmanna við Þingvallavatn í gær. Ljósmynd/Aðsend

Ekki er hægt að segja til um eldsupptök þegar stórt sumarhús og annað minna við hlið þess brunnu til grunna Grafningsmegin við Þingvallavatn. Eldurinn kom upp í hádeginu í gær en slökkvistarf gekk vel.

Vettvangsvinna lögreglu hófst í morgun en Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við mbl.is að það þurfi að skoða ákveðna þætti á rannsóknarstofu. 

Enginn var í húsinu þegar eldurinn kom upp og voru önnur hús í nágrenni brunans ekki í hættu. Oddur segir að rannsókn lögreglu á upptökum eldsins sé flókin vegna þess að lítið er eftir nema rústir.

„Það sem gerir þetta flókið er að það er allt gjörsamlega brunnið til grunna. Við getum samt skoðað ákveðna þætti,“ segir Oddur og vonast til að niðurstaða fáist í málið í lok vikunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert