Rannsókn máls þar sem ráðist var á tvo dyraverði fyrir utan skemmtistaðinn Shooters aðfaranótt sunnudags miðar vel. Aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfestir að annar mannanna hafi orðið fyrir alvarlegum meiðslum.
Fram kom í gærkvöldi að óttast er að annar dyravörðurinn hafi orðið fyrir mænuskaða en hinn meiddist lítið. Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagðist ekki getað staðfest annað en að afleiðingarnar væru miklar fyrir þann sem fór verr út úr árásinni.
Tveimur árásarmannanna hafði verið vísað frá skemmtistaðnum en sneru aftur skömmu síðar með liðsauka og veittust að tveimur dyravörðum á staðnum.
Mennirnir fjórir sem voru handteknir eru íslenskir ríkisborgarar. Þeir hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald.
Margeir segir rannsókn málsins miða vel. Lögregla sé að afla upplýsinga, bæði með því að skoða upptökur og einnig með því að ræða við vitni.
Uppfært kl. 12:24:
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við Vísi að samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu lækna hlaut maðurinn mænuskaða.