„Skrýtin tilfinning að vera búinn“

Jón Eggert í sjósundgalla, en hann hefur m.a. synt úti …
Jón Eggert í sjósundgalla, en hann hefur m.a. synt úti fyrir ströndum Íslands. Mynd úr safni. Ljósmynd/Pamela Perez

„Það er skrýtin tilfinning að vera búinn. Dagurinn er eiginlega tómur,“ segir Jón Eggert Guðmundsson, sem lauk á sunnudag heimsmetstilraun sinni í lengstu þríþrautinni. Frá því hann hóf heimsmetstilraunina 9. febrúar á þessu ári hefur hann hlaupið 1.456 km, hjólað 5.700 km og synt 240 km án þess að missa dag úr hreyfingu.

Jón Eggert lauk heimsmetstilrauninni um fimmleytið að staðartíma á sunnudag, en hann er búsettur í Flórída og segir sundið þann daginn hafa gengið vel. „Á þessu stigi þá vissi maður alveg að maður myndi klára þetta,“ segir Jón Eggert sem fékk fylgd síðasta daginn.

„Það voru þarna nokkrir úr Everglades Bikeclub-hjólahópinum sem ég er í og svo frá sjónvarpsstöð á staðnum.“ Eins hafi verið þar fólk frá LA Fitness, sem er styrktaraðili hans í heimsmetstilrauninni. „Svo kom líka sundfólk,“ bætir Jón Eggert við. „Þó að mikið sé af sundlaugum á Miami þá er ekki sterk sundhefð hér, en það kom samt fólk og synti með mér nokkra metra.“

Jón Eggert játar að það hafi verið gott að fá stuðning á þessum lokalegg heimsmetatilraunarinnar.

Svaf og hlóð batteríin

Spurður hvað hann hafi gert eftir að hann lauk heimsmetstilrauninni kveðst Jón Eggert hafa sofið vel. „Í gær var ég bara þreyttur, þannig að ég bara svaf og hlóð batteríin. Ég rétt vaknaði til að borða, síðan sofnaði ég aftur og það var alveg svakalega gott.“ Hann hafi líka vaknað úthvíldur í morgun.

„Maður er alveg eldhress núna,“ segir Jón Eggert og hlær.

Þó að gærdagurinn hafi að mestu farið í svefn hyggst hann ekki hætta að hreyfa sig. „Ég ætla að halda áfram að synda fram að mánaðamótum svo líkaminn fari rólega niður,“ segir hann og kveðst gera ráð fyrir að synda helmingi styttri vegalengd næstu daga.

Þá vinnur hann líka að því að styrkja aðra öxlina, en einu alvöru meiðslin sem hann varð fyrir við heimsmetstilraunina voru á öxl í sundinu. „Þetta er svonefnt „rotator cusp“, sem er þekkt sundvandamál. Þannig að ég er núna að taka æfingar þar sem ég er að styrkja vöðvana í kring svo þeir geti tekið við álaginu.“ 

Jón Eggert í sundlauginni þar sem hann synti 240 km.
Jón Eggert í sundlauginni þar sem hann synti 240 km. Ljósmynd/Aðsend

Fellibyljatímabilið getur sett strik í reikningin

Jón Eggert veltir því líka fyrir sér þessa dagana að takast fljótlega á við næstu heimsmetstilraun. Að þessu sinni í að hlaupa hálfmaraþon dag eftir dag. „Heimsmetið núna er 53 dagar og ég náði að hlaupa tæpa 20 km daglega í 80 daga í vor þannig að ætti að geta náð fleiri en 53 dögum,“ segir hann.

„Mig langar að byrja í kringum 20. september, því þá er maður enn í líkamlega góðu formi eftir þetta, en samt orðinn hvíldur og getur þá notað þessa miklu orku sem maður hefur.“

Veðrið geti hins vegar sett strik í reikninginn þar sem fellibyljatímabilið fari að ganga í garð. „Maður getur alveg lent í því að það komi fellibylur og maður verði þá að hætta og byrja upp á nýtt.“

Eins segir Jón Eggert að sig langi að koma í heimsókn til Íslands í desember, en hann kom ekkert heim í sumar líkt og hann hefur gert undanfarin ár. „Þannig að ef ég sleppi því að byrja að hlaupa í september þá byrja ég í janúar. Það er gott veður þá.“

Jón Eggert kveðst hafa fengið nokkra athygli út á heimsmetstilraunina þarna ytra og hafa þegar birst fréttir af tilrauninni í yfir 4.000 miðlum. „Ég hef samt heyrt frá öðrum sem hafa reynt sig við þetta heimsmet að fjölmiðlar sé tregir til að fjalla um það þangað til það er búið, en þá hefur umfjöllunin líka verið töluverð,“ segir hann og kveðst sjálfur fylgjast með öðrum sem reyni sig við metið.

Jón Eggert tekur lokasundtökin í lauginni á sunnudag.
Jón Eggert tekur lokasundtökin í lauginni á sunnudag. Skjáskot/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert