Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) nær yfir tjón sem verður af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða og er bundið lögum um stofnunina. Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri NTÍ, segir ástæðu þess að tryggingin taki ekki einnig til skýstróka líkt og fóru yfir bæinn Norðurhjáleigu á föstudag vera þá að foktrygging standi til boða hjá tryggingafélögunum sem nær yfir slíka atburði.
„Við erum í raun að dekka þau tjón sem vátryggingafélögin hafa ekki haft í sínu vöruframboði af því að það er hvorki fjárhags- né samfélagslega hagkvæmt að hvert félag sé að sýsla með þessi tjón fyrir sig,“ segir Hulda.
Spurð hvort ekki megi telja skýstrókana og tjónið sem þeir ollu sem vissar náttúruhamfarir, en stór jeppi með kerru þeyttist út í skurð, þakplötur fuku fleiri hundruð metra og girðingar lögðust á hliðina, segir Hulda svo vissulega vera. „Þetta er samt líka mjög snarpur og afmarkaður vindur og flokkast þess vegna undir þessar foktryggingar,“ segir hún.
Lagabreytingar þyrfti við ef náttúruhamfaratrygging ætti einnig að taka til tjóns af völdum skýstróks.
Hulda segir ýmsar nefndir hafa endurskoðað lögin á þeim átta árum sem hún hefur verið hjá NTÍ og þær hafi margskoðað hvort náttúruhamfaratrygging eigi að taka til fleiri þátta. Þannig hafi m.a. verið skoðað hvort tryggingin eigi einnig að taka til myglu, veggjatítla og skógarelda. Engar slíkar breytingar hafa þó verið gerðar.
„Fólk þarf líka að vera tilbúið að borga iðgjald fyrir áhætturnar sem bætt er inn, vegna þess að ef að það koma ekki iðgjöld fyrir áhættunni þá gengur tryggingastærðfræðin ekki upp,“ segir hún. Áhættan þurfi að vera nægilega mikil til að hún sé réttlætanleg sem hluti af skyldutryggingu. „Því það er almenningur sem borgar trygginguna.“
„Eins og þetta er í dag, þá stendur iðgjaldið undir þeirri vátryggingarvernd sem náttúruhamfaratryggingin tekur til,“ segir Hulda, en iðgjald náttúruhamfaratryggingar er innheimt samfara lögbundinni brunatryggingu.
Spurð hvort NTÍ greiði háar tjónsupphæðir árlega segir hún svo ekki vera. „Þetta kemur í bylgjum.“ 4-6 tjónsatburðir á ári falli þó að jafnaði undir NTÍ. Þegar tjónasaga NTÍ er skoðuð sést líka að upphæðirnar virðast almennt lágar og standa árin 1995 vegna snjóflóðanna á Súðavík og Flateyri, 1996 vegna jökulhlaupa og árin 2000 og 2008, er Suðurlandsskjálftarnir riðu yfir, þannig áberandi upp úr kostnaðargrafi.
Algengt er að vatnsflóð séu orsök minni tjónsatburða, annarra en jarðskjálfta og eldgosa. „Við köllum þetta friðartíma, sem eru á milli stóru atburðanna sem eru kannski á 10-20 ára fresti,“ segir Hulda. „Við erum með 50-150 tjónamál eiginlega öll ár og þannig voru vatnsflóðin sem voru t.d. í Hvítá þar sem flæddi inn í sumarbústaði í mars, tjón sem féllu undir okkur.“