600 hreindýr felld af 1.450 dýra kvóta

Hreindýr á beit.
Hreindýr á beit. mbl.is/Eggert

Alls hafa um 600 hreindýr verið felld á Austurlandi af þeim 1.450 dýra veiðikvóta sem umhverfisráðherra gaf út í ársbyrjun að fengnum tillögum frá Umhverfisstofnun.

Talið er ólíklegt að kvótinn verði fullnýttur að óbreyttu og minnir Umhverfisstofnun veiðimenn á að nýta úthlutuð veiðileyfi, að því er segir á Facebook-síðu stofnunarinnar.

Heimilt er að veiða 1.061 kú og 389 tarfa. Veiðin skiptist milli níu veiðisvæða og er veiðitími tarfa til og með 15. september.

Veiðitími kúa er til og með 20. september og fer því að styttast í veiðitímabilinu.

Veturgamlir tarfar eru alfriðaðir og miðast tarfaveiði því við tveggja vetra og eldri tarfa. Óheimilt er að veiða kálfa.

Á svæði 8 verður heimilt að veiða 40 kýr í nóvember á tímabilinu frá 1. til 20. Það val fer fram í umsóknarferlinu sjálfu.

Enginn veiðimaður staðinn að ólöglegri veiði

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að eftirlitsmenn hafi fylgst með veiðimönnum og stöðvað 28 þeirra í fylgd 12 leiðsögumanna.

Allir veiðimennirnir sem lentu í skoðunarúrtakinu höfðu meðferðis leyfisbréf og merki. Allir höfðu merkt fellt dýr með plastmerki utan tveggja sem voru merkt á staðnum.

Einn hafði gleymt skotvopnaleyfi í öðrum bíl og einn gleymt sínu leyfi heima. Ekki eru sérstök viðurlög við því en lögregla hefur heimildir til að stöðva veiðar þeirra sem ekki eru með leyfið tiltækt.

Í heildina var því enginn staðinn að ólöglegri veiði. Að sögn eftirlitsmanns voru leiðsögumenn og veiðimenn almennt mjög kurteisir og jákvæðir gagnvart eftirlitinu.

Í ársskýrslu Umhverfisstofnunar fyrir árið 2017 kemur fram að árið 2016 sættu 103 veiðimenn sem felldu dýr eftirliti. 82% þeirra fengu engar athugasemdir frá eftirliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert