Í nýrri könnun frá MMR sögðust 68% aðspurðra vera jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að viðhorf til erlendra ferðamanna sé jákvæðara en í fyrra, þar sem hlutfallið var fjórum prósentustigum lægra í sambærilegri könnun MMR sem gerð var í fyrra.
Karlar voru líklegri en konur til að vera neikvæðir gagnvart ferðamönnum, 11% karla kváðust neikvæðir gagnvart þeim en 7% kvenna. Munur var á svörum íbúa á höfuðborgarsvæðinu og íbúum landsbyggðarinnar en 71% íbúa á höfuðborgarsvæðinu voru jákvæð í garð ferðamanna, en hlutfallið hjá íbúum landsbyggðarinnar var 63%.
Stuðningsfólk Viðreisnar og Samfylkingarinnar var líklegast til að vera jákvætt í garð erlendra ferðamanna en 88% svarenda beggja flokka svöruðu á þann veg. Hins vegar mældist jákvæðni gagnvart ferðamönnunum heldur minni meðal stuðningsfólks Miðflokksins (51%) og Flokks fólksins (55%).
Könnunin var framkvæmd dagana 25. júlí til 1. ágúst og var heildarfjöldi svarenda 911, 18 ára og eldri.