Jón Birgir Eiríksson
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust tvær tilkynningar um að veist hefði verið að stúlkum í Garðabæ milli klukkan 16.00 og 18.00 í gær. Það gerðist á svipuðum stað og þar sem ráðist var á stúlku á fimmtudag, á göngustíg við Arnarnesmýri, meðfram Gullakri og Góðakri. Stúlkurnar sem veist var að í gær eru á svipuðum aldri og þrjár stúlkur sem veist hefur verið að síðustu misseri í Garðabæ. Auk atviksins á fimmtudag var ráðist á tíu ára stúlku í desember í fyrra þar sem hún var á gangi. Var hún tekin hálstaki, gripið um munn hennar og hún dregin í burtu.
Fyrir um tveimur vikum var svo ráðist á átta ára stúlku þar sem hún var á gangi með hund sinn í bænum og hún slegin. Stúlkurnar sem ráðist var á í gær gátu lýst árásarmanninum og voru lýsingar þeirra áþekkar lýsingum hinna stúlknanna.
Lögregla kannaði vettvang í gær, m.a. með hjálp flygildis, en ekki er útilokað að tengsl séu á milli atvikanna í gær og þeirra sem áður hafa verið tilkynnt í bænum. „Tilkynningunum svipar til þeirra sem komu í síðustu viku og við erum að skoða málið. Atburðarásin nú var sambærileg þeirri á fimmtudaginn,“ segir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og nefnir að lögreglan hafi aukið eftirlit í bænum. „Við erum að vinna úr þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur. Við skoðum málið þannig að þarna geti verið um sama einstakling að ræða en einblínum þó ekki á það. Það er bara einn möguleiki,“ segir hann.