Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir hafa hægt hraðar á hagkerfinu en hann reiknaði með. Því geti þurft að endurmeta spár um hagvöxt í ár til lækkunar.
„Mér hefur þótt þróunin öllu hraðari frá vordögum en ég reiknaði með, hvort sem litið er á kortaveltu, væntingavísitöluna eða innflutning neysluvara. Þótt sumarið komi betur út en ýmsir óttuðust er ferðamönnum að fjölga hægar en búist var við.“
Tilefnið er umræða um stöðu flugfélaganna. Kemur hún í kjölfar umræðu í vor um að vöxtur ferðaþjónustu í ár yrði líklega undir spám. Í umfjöllun um afkomu Icelandair í Morgunblaðinu í dag segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, neikvæðar fréttir af stöðu efnahagsmála geta dregið úr einkaneyslu og fjárfestingu heimila og fyrirtækja.
„Væntingar heimilanna um framtíðartekjur geta breyst við þetta og það síðan haft áhrif á neysluhegðun þeirra og fjárfestingaráform.“
Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir neikvæða umræðu um efnahagsmál geta haft áhrif. „Þjóðin fylgist vel með þróun mála. Þetta er sambærilegt við það þegar sjávarútvegsfyrirtæki lentu áður í vandræðum. Bætt lífskjör á síðustu árum hafa að miklu leyti verið sótt til ferðaþjónustunnar.“
Andrés Jónsson almannatengill segir mikilvægt að huga að væntingastjórnun við þessar aðstæður.