Vegagerðin reiknar með að mun minna þurfi að dýpka í og við Landeyjahöfn á næstu þremur árum en þurft hefur síðustu fjögur árin. Stafar það af því að nýja Vestmannaeyjaferjan ristir grynnra en núverandi Herjólfur.
Vegagerðin hefur boðið út dýpkun við Landeyjahöfn næstu þrjú árin. Miðað er við 300 þúsund rúmmetra dýpkun á ári, eða samtals 900 þúsund rúmmetra. Á árunum 2015 til 2017 nam dýpkunin 500 til nærri 600 þúsund rúmmetrum á ári og það sem af er þessu ári 385 þúsund rúmmetrum.
Samkvæmt upplýsingum Sigurðar Áss Grétarssonar, framkvæmdastjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar, stafar munurinn á milli ára af mismunandi öldufari en einnig af því hvaða svæðum er dýpkað á hverju sinni. Þannig var mikið dýpkað fyrir utan höfnina á árinu 2015, þegar magnið var mest, og innan hafnar 2017.