„Óboðlegt að börn séu ekki örugg“

„Garðbæingum er eðli málsins samkvæmt mjög brugðið. Það er náttúrulega algerlega óboðlegt að börn og ungmenni séu ekki örugg í bæjarfélaginu sínu,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar. Árásir á ungar stúlkur í bænum að undanförnu hafa vakið sterk viðbrögð.

Íbúar hafa verið í sambandi við bæjarskrifstofuna og skólana til að miðla upplýsingum en bæjaryfirvöld funduðu með skólastjórnendum, við þau svæði þar sem árásirnar hafa verið, í morgun. Börn eru hvött til að vera ekki ein á ferli þar sem ráðist hefur verið að stúlkunum.

Áslaug segir að á undanförnum árum hafi nágrannagæsla verið efld í bænum en jafnframt hafi öryggismyndavélar verið settar upp við umferðargötur í kjölfar innbrotafaraldurs. „Ég held að næst á dagskrá hjá okkur sé að skoða opin svæði. Hvað við getum gert þar til að tryggja öryggi.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert