„Við finnum fyrir miklum áhuga enda erum við að bjóða upp á einstaka upplifun,“ segir Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóri Sjóbaðanna á Húsavíkurhöfða, GeoSea.
Böðin opna dyr sínar fyrir gestum klukkan 10 á föstudag og þá geta fyrstu gestirnir notið þeirra.
Sigurjón segir að framkvæmdir séu á lokastigi. Baðhúsið sjálft sé að mestu tilbúið og böðin sem eru utanhúss alveg tilbúin. Enn sé verið að vinna við að ganga frá umhverfinu og verði sú vinna áfram í gangi. Böðin eru við vitann á Húsavíkurhöfða, nálægt bjargbrúninni, og er útsýnið út á Skjálfandaflóa og til Kinnarfjalla tilkomumikið, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.