Af hverju fækkar lundunum? Blaðamaður New York Times ferðaðist alla leið til Íslands til að freista þess að finna svarið við þessari spurningu. Lundum hefur farið fækkandi á heimsvísu frá því um síðustu aldamót og hefur tala þeirra farið úr rúmum sjö milljónum niður í 5,4 milljónir. Frá 2015 hefur lundastofninn verið á válista Alþjóðegu náttúruverndasamtakanna.
Blaðamaður New York Times og ljósmyndari fylgdu eftir vísindamönnunum dr. Erpi Snæ Hansen, starfandi forstöðumanni Náttúrustofu Suðurlands, og dr. Annette Fayet. Erpur hefur fylgst með lundastofninum á Íslandi um árabil og Fayet er að vinna að rannsóknarverkefni við Oxford-háskóla þar sem hún vaktar fjórar lundanýlendur í Wales, Noregi og tvær á Íslandi.
Erpur hefur stýrt svokölluðu lundaralli síðastliðin níu ár þar sem hann fer tvisvar yfir sumarið hringinn í kringum landið og athugar meðal annars hversu margir ungar hafa komist á legg. Samkvæmt nýjustu fregnum frá lundaralli í Stórhöfða í Vestmannaeyjum eru 46% unga enn á lífi. Ábúðin í Höfðanum er nú 73%, sem séu góðar fréttir, að sögn Erps.
Viðkomustaðir hópsins voru meðal annars Grímsey, Papey og Lundey þar sem þau rákust á veiðimenn sem höfðu veitt hundruð lunda og segist Erpur ávallt hafa átt í góðu sambandi við veiðimennina.
Ofveiði er einmitt ein ástæðan fyrir fækkun lundans, en skortur á æti, mengun og loftslagsbreytingar eru einnig stórar breytur. Skortur á sandsíli, eftirlætisæti lundans, er sögð helsta ástæða fækkunar lundans við Íslandsstrendur og má rekja skortinn til hitastigs sjávarins sem hefur farið hækkandi. Lundarnir þurfa því að fljúga lengra í leit að æti og það hafa vísindamenn fengið staðfest með því að merkja lundana með GPS-sendum og lesa úr ferðum þeirra.
Lundarnir skipta enn milljónum svo erfitt er að greina fækkunina með berum augum. „Þessir fuglar eru langlífir þannig að þú sérð þá ekki hrapa niður,“ segir Erpur, en varar við því að til lengri tíma litið er lundastofninn ekki sjálfbær.