Dýraníðsmál falli milli stafs og hurðar

Hallgerður segir sumt fólk því miður hafa óbeit á köttum.
Hallgerður segir sumt fólk því miður hafa óbeit á köttum. Ljósmynd/Styrmir Kári

„Við sem samfélag eigum að vernda dýrin, alveg sama hvaða dýr það eru, og gæta að því að tekið sé tillit til þeirra og að þeim sé sýnd virðing,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands. „Þegar það bregst, eins og í þessu og líkum málum, þá er um að ræða mjög veikt fólk. Samfélagið á að bregðast við því, stöðva þetta fólk og aðstoða það.“

Læðan Lísa fannst illa haldin í Hellisgerði í Hafnarfirði í gær, en búið var að hengja hana og festa ólar og bönd á hana alla. Lísu var fljótt komið undir læknishendur á Dýraspítalanum í Garðabæ. Ekki er vitað um ástand læðunnar, en samkvæmt upplýsingum frá spítalanum hefur tekist að hafa uppi á eiganda Lísu, sem var örmerkt.

Hallgerður segir áhugavert að skoða málið út frá dýrategundum. „Það er löglegt að drekkja minkum og þegar það er rætt þá er ákveðinn hópur sem finnst það bara allt í lagi af því minkar eru svo erfiðir, leiðinlegir, vondir og svo framvegis. Fólk réttlætir að drekkja minkum,  sem er skilgreint sem dýraníð gegn öllum öðrum dýrategundum í íslenskum lögum, vegna skoðana sinna á minkum.“

Hópur fólks sem hefur óbeit á köttum

„Það er því miður svolítið stór hópur af fólki sem hefur óbeit á köttum og leyfir sér að beita þá ofbeldi, sparka í þá og slíkt, og ganga síðan lengra eins og í þessum málum.“

Kötturinn fannst illa leikinn í Hellisgerði í Hafnarfirði.
Kötturinn fannst illa leikinn í Hellisgerði í Hafnarfirði. mbl.is/Golli

Hallgerður bendir á að alríkislögreglan í Bandaríkjunum (FBI) hafi byrjað að líta dýraníð jafnalvarlegum augum og þjófnaði, innbrot, líkamsárásir og morð árið 2016 vegna þess að dýraníð sé oft undanfari stærri glæpa.

„Á Íslandi falla þessi mál á milli stafs og hurðar hjá yfirvöldum sem einstök tilvik, í stað þess að þetta sé skoðað í heildarsamhengi. Þarna er um að ræða mjög veikt fólk sem er líklegt til þess að fremja glæpi,“ segir Hallgerður og líkir málum sem þessum við heitan bolta sem lögregla, Matvælastofnun og yfirvöld kasta sín á milli.

„Þetta er eina fólkið sem hefur umboð til þess að bregðast við á löglegan hátt.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst henni tilkynning um málið í morgun. Lögreglan aðhefst ekki í málinu nema kæra liggi fyrir. Í samtali við mbl.is staðfesti Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, að málið væri þar til rannsóknar. Þegar rannsókn er lokið mun ákvörðun verða tekin um það hvort málið verði kært til lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka