„Sveitarstjórn fer fram á að almannatryggingakerfið taki til endurskoðunar skilgreiningu á því hvað telst til náttúruhamfara í ljósi nýliðinna atburða vegna tjóns af völdum skýstróks í Norðurhjáleigu.“ Þetta kemur fram í ályktun sveitarstjórnar Skaftárhrepps vegna skýstróks sem gekk yfir bæinn Norðurhjáleigu síðastliðinn föstudag.
Eins og greint var frá í gær þyrfti lagabreytingar ef náttúruhamfaratryggingin ætti að taka til tjóns af völdum skýstróks.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratrygginga Íslands NTÍ, segir ástæðu þess að tryggingin taki ekki einnig til skýstróka líkt og fóru yfir bæinn Norðurhjáleigu á föstudag vera þá að foktrygging standi til boða hjá tryggingafélögunum sem nær yfir slíka atburði.
Í ályktun sveitarstjórnar Skaftárhrepps segir að skýstrókar af þeirri stærðargráðu sem gengu yfir Norðurhjáleigu séu ekki þekkt fyrirbrigði á Íslandi í sögulegu samhengi. Ljóst sé hins vegar að þetta geti gerst aftur, hvar sem er á landinu.
„Skýstrókar eru ófyrirsjáanlegir með öllu og hefur Veðurstofa Íslands enga möguleika á að gefa út viðvaranir vegna þeirra. Sveitarstjórn fer fram á að viðeigandi stofnanir í samvinnu við ríkið bæti það tjón sem ábúendur í Norðurhjáleigu urðu fyrir 24. ágúst sl.,“ segir í ályktuninni.
Eva Björk Harðardóttir, oddviti Skaftárhrepps, segir í samtali við mbl.is að sveitarstjórnin standi vörð um hag íbúanna. „Það er okkar hlutverk að leita leiða innan stjórnsýslunnar og það verða að vera leiðir þegar svona gerist,“ segir Eva.
Sveitarstjórnin mun senda almannatryggingum og forsætisráðherra bréf um að það sé þörf á því að endurskoða skilyrði fyrir bótum úr NTÍ.